22.2.2025 10:39

Óttinn við Sjálfstæðisflokkinn

Liður í samtryggingarkerfinu sem myndað hefur verið í enn einni myndinni undanfarnar vikur til að halda sjálfstæðismönnum frá völdum er lygin um að setja megi Sjálfstæðisflokkinn í sömu skúffu og Ingu Sæland.

Nýr meirihluti fimm flokka, Samfylkingar, Pírata, Sósíalista, Flokks fólksins og VG tók við völdum í borgarstjórn Reykjavíkur föstudaginn 21. febrúar. Þá voru réttar tvær vikur liðnar frá því að Einar Þorsteinsson borgarstjóri Framsóknarflokksins hafði fengið nóg af meirihlutasamstarfi með Samfylkingu, Pírötum og Viðreisn. Eftir samtöl undanfarna daga er það niðurstaða kvennanna sem skipa oddvitasæti flokkanna að ekki eigi að kenna þær við meirihluta heldur samstarf. Nýr borgarstjóri er Heiða Björg Hilmarsdóttir.

Fyrirsögn fréttar Morgunblaðsins um valdaskiptin er: „Við þorum, getum og viljum“. Allt eru þetta falleg orð sem segja í raun ekkert hvað tekur við í borginni fram að sveitarstjórnarkosningum í sumarbyrjun 2026. Orðin endurspegla neikvæða hugarfarið sem býr að baki samstarfinu: að koma í veg fyrir að sjálfstæðismenn myndi meirihluta og geti tekið til hendi í rústunum sem við blasa eftir forystu Samfylkingarinnar og Dags B. Eggertssonar.

Það fór gleðibylgja um þennan pólitíska arm þjóðarinnar þegar Inga Sæland, stofnandi, eigandi og formaður Flokks fólksins, gaf það út að fulltrúi sinn í borgarstjórn myndi ekki starfa með sjálfstæðismönnum í borginni.

Með ákvörðun Ingu kokgleypti Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, fráfarandi borgarfulltrúi og nýkjörinn þingmaður Flokks fólksins, öll stóru orðin sín í borgarstjórn og fyrirgaf fyrirlitninguna sem Dagur B. hafði sýnt henni. Helga Þórðardóttir sem tók sæti Kolbrúnar og naut skjóls hjá sjálfstæðismönnum snerist á punktinum og gekk til samstarfsins við þá sem reyndu markvisst að niðurlægja hana.

Screenshot-2025-02-22-at-09.39.09

Allt var þetta liður í varðstöðu um setu Ingu og félaga í ríkisstjórninni. Þetta sjónarspil er jafnvel gagnsærra en brölt Viðreisnar og viðleitni fjármálaráðherra hennar til að tryggja opinbert fjárstreymi til Ingu og félags hennar.

Liður í samtryggingarkerfinu sem myndað hefur verið í enn einni myndinni undanfarnar vikur til að halda sjálfstæðismönnum frá völdum er lygin um að setja megi Sjálfstæðisflokkinn í sömu skúffu og Ingu Sæland þegar kemur að greiðslu opinberra styrkja til stjórnmálaflokka. Fjármálaráðherra Daði Már Kristófersson skýlir sér á bak við meingallað lögfræðiálit. Við gerð þess var ekki gætt rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Leiðbeiningarnar eru því marklausar.

Samfylkingarfólk grípur til hallærislegra tilfinningaraka þegar það veitist að sjálfstæðismönnum. Það birtist meðal annars í pistli Kolbrúnar Bergþórsdóttur í Morgunblaðinu í dag (22. febrúar) þegar hún býsnast yfir því að þingflokkur sjálfstæðismanna vildi að reglur um afnot af þingflokksherbergjum yrðu virtar þegar þing kæmi saman. Ragna Árnadóttir, fráfarandi skrifstofustjóri alþingis, úrskurðaði á grundvelli reglnanna og tók undir sjónarmið sjálfstæðismanna. Þá beitti samfylkingarkonan Þórunn Sveinbjarnardóttir forseti alþingis sér gegn sjálfstæðismönnum með nýjum reglum.

Þórunn sat aðgerðalaus á forsetastóli þingsins þegar Kristrún Frostadóttir braut þingskapalögin með flutningi stefnuræðu sinnar.

Reynt er að breiða yfir þessi brot og hneykslið vegna Ingu með tilfinningavaðli og lygum. Stjórnmálin eiga betra skilið