25.10.2022 11:07

Óttinn við félagafrelsið

Félagsgjöld renna sjálfkrafa í sjóðina, þau eru hluti af réttinum til að vinna hér á landi. Skyldugreiðslur til ráðstöfunar fyrir verkalýðsforystunnar eru ekki stjórnarskrárvarðar.

Uppnámið sem verður þegar á opinberum vettvangi þegar rætt er um verkalýðshreyfinguna eða skipulag hennar er undarlegt. Einkum þegar til þess er litið að engir hafa verið hreyfingunni og forráðamönnum hennar verri á þessu ári en forystumenn Verslunarmannafélags Reykjavíkur (VR), Eflingar stéttarfélags og Starfsgreinasambandsins (SGS).

Forystumenn þessara þriggja meginstoða Alþýðusambands Íslands (ASÍ) héldu fram að þingi sambandsins fyrr í þessum mánuði uppi stöðugum árásum á Drífu Snædal, forseta ASÍ. Undir þessum árásum og ásökunum hrökklaðist hún úr forsetastólnum í ágúst 2022.

Stefndi þá Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, að því að verða foreti ASÍ með Sólveigu Önnu Jónsdóttur Eflingu og Vilhjálm Birgisson SGS sem 2. og 3. varaforseta.

Abadce538ad3f88085ad3e5fd73e5febe4c033edFrá 45. þingi ASÍ, október 2022 (mynd:vefsíða ASÍ).

Eftir að þingið hófst og ljóst var að þingfulltrúar lögðu ekki rauða dregilinn fyrir þríeykið að forsetapallinum urðu framboð þeirra að engu. Þetta reyndist allt sýndarmennska. Við tóku hótanir um úrsögn VR og Eflingar úr ASÍ. Það reyndust einnig stóryrði án stuðnings í félögum formannanna.

Þeir sem utan hreyfingarinnar standa undrast að almennir félagsmenn gefi forystumönnum sem njóta stuðnings hlutfallslega fámenns hóps í félögum sínum svigrúm til að koma fram á þennan hátt, þjóna eigin duttlungum án minnstu virðingar fyrir almennum hagsmunum hreyfingarinnar.

Skýringin er einföld: Skylduaðildin að þessum félögum. Félagsgjöld renna sjálfkrafa í sjóðina, þau eru hluti af réttinum til að vinna hér á landi. Skyldugreiðslur til ráðstöfunar fyrir verkalýðsforystunnar eru ekki stjórnarskrárvarðar. Þær ert nýttar á ýmsan hátt. Minna má að lokahótun Ragnars Þórs gagnvart ASÍ var að betra væri að virða vilja hans vildu menn að VR héldi áfram að greiða 175 m. kr. í aðildargjöld til ASÍ.

Viðbrögð forystusveitar verkalýðshreyfingarinnar við frumvarpi frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins til laga um félagafrelsi á vinnumarkaði eru dæmigerð um að þar á bæ finnst mönnum fráleitt að það verði lagt á þá sem stjórna stéttarfélögum að fara á það sem svo smekklega er kallað „félagsmannaveiðar“.

Í upphafi greinargerðar frumvarps sjálfstæðismannanna segir:

„Vernd félagafrelsis byggist á 74. gr. stjórnarskrárinnar og ýmsum alþjóðasáttmálum, einkum 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE). Í stjórnarskránni er kveðið á um vernd jákvæðs félagafrelsis en einnig neikvæðs félagafrelsis, þ.e. um réttinn til að standa utan félaga, og veitir stjórnarskráin því félagafrelsinu meiri vernd en MSE.“

Eftir það sem á undan er gengið innan ASÍ undanfarið er fráleitt að finna sjálfstæðismönnum til foráttu að þeir flytji frumvarp sitt nú og kalla það „kalda gusu framan í launafólk“. Að hafa það helst á móti þjóðþrifamálum að þeim eigi að hreyfa á öðrum tíma en gert er bendir ekki til sterkrar málefnastöðu. Að vernd mannréttinda sé hættulegri fyrir kjör launafólks en stríðsástandið innan ASÍ stenst ekki.