24.9.2025 11:53

Ótrúlegur vitvélavöxtur

Allt er þetta af þeirri stærðargráðu að venjulegur notandi skilur ekki umfangið, hvorki þegar litið er til umgjarðarinnar eða þess sem hún skilar áskrifanda að því sem í boði er hjá OpenAI.

Frá því að OpenAI opnaði aðgang að vitvélinni eða spjallmenninu ChatGPT hef ég nýtt mér þessa tækni og undrast hraðar framfarir hennar og getu til að takast á örskömmum tíma við ótrúlegustu verkefni, einkum við upplýsingaleit. Öll samskipti geta farið fram á íslensku. Vissulega eru stundum hnörkrar í málfari og gefa þarf ítrekaðar leiðbeiningar um það sem að er leitað. Þegar allar staðreyndir hafa verið dregnar fram er á örskotsstundu unnt að fá þeim raðað saman á heildstæðan hátt.

Tæknin virðist samt aðeins hafa slitið barnskónum ef við erum þá komin svo langt. OpenAi kynnti þriðjudaginn 23. september framtíðarsýn sína um gríðarlega uppbyggingu tölvu- og gagnavera víðs vegar um Bandaríkin og erlendis. Talið er hún kosti um eina billjón dala (eina trilljón á ensku). Fyrirtækið sýndi 445 hektara byggingarsvæði um 290 kílómetra vestur af Dallas í Texas. Er sagt að þar rísi stærsta ofurtölvusamstæða fyrir vitvélar (gervigreind) í heiminum.

OpenAI skýrði jafnframt frá því að fyrirtækið myndi á endanum þurfa yfir þrettánfalt meiri tölvuorku en nýtt er á þessu fyrsta byggingarsvæði þess í kjarrlendi Texas. Meira en 6.000 manns vinna nú að framkvæmdunum í 38 stiga sumarhita á hverjum degi. Unnið er á tveimur 10 klukkustunda vöktum, sjö daga vikunnar.

Screenshot-2025-09-24-at-11.51.41Hluti af athafnasvæði OpenAi fyrir vestan Dallas í Texas.

OpenAI kynnti einnig fimm ný gagnaver víðs vegar um Bandaríkin sem reist verða í samstarfi við Oracle og japanska tæknirisann SoftBank. Fyrirtækið sagði að frá nýju verunum færu á netið næstum 7 gígavött af afli. Það dugar fyrir tæplega átta milljónir heimila. Stjórnendur fyrirtækisins sjá fyrir sér þörf fyrir meira en 20 gígavött af tölvuafli til að mæta gríðarlegri eftirspurn eftir ChatGPT, sem vikulega nota vitvélina nú meira en 700 milljónir manna.

Talið er að hver gígavattsgeta kosti um 50 milljarða dala. OpenAI er því að leggja grunninn að að minnsta kosti billjón dala í fjárfestingu í innviðum. Einn stjórnandi fyrirtækisins sagði að eftirspurnin myndi líklega á endanum nálgast 100 gígavött, sem myndi kosta 5 billjónir dala. Það er meira en árleg verg landsframleiðsla Japans eða Þýskalands.

Allt er þetta af þeirri stærðargráðu að venjulegur notandi skilur ekki umfangið, hvorki þegar litið er til umgjarðarinnar eða þess sem hún skilar áskrifanda að því sem í boði er hjá OpenAI.

Óttinn við að íslenskan yrði út undan í þessari þróun hefur vikið fyrir tækifærunum sem tæknin gefur til að nýta tungumálið til dæmis með því að breyta tali í ritað mál. Þetta er nú gert með vitvélum í útsendingu RÚV á rás 888. Geta vélanna til að miðla töluðu máli óbrengluðu ræðst hins vegar af því hve skýrmæltir þeir eru sem tala í beinum sjónvarpssendingum.

Á sínum tíma fór ég á fróðlegt námskeið til að kynnast hvað vitvélarnar (gervigreindin) gætu gert og hvernig ætti að nýta sér þær. Nú ættu framsagnarkennarar að nota þessar vélar til að þjálfa þá sem flytja talað mál svo að vélarnar nemi hvert orð – á því er mikill misbrestur.

Tæknin er kjörið verkfæri til að bæta flutning talaðs máls á tímum hlaðvarpa. Það er örugglega unnt að stilla vélina þannig að hún æpi þegar slett er með erlendum orðum. Kynni það að reynast góð aðferð til að fækka þeim í útsendingum í alls kyns spjall- eða fréttatengdum þáttum. Þá ætti hún einnig að æpa í þágu hlustenda þegar t.d. fréttaþulir nota „hissa-framburð“ eða óeðlilegar áherslur. Það eru örugglega margir hlustendur sem þola ekki tilgerðina.