24.2.2025 11:35

Öskjuhlíðin opnast með auknu öryggi

Þessi lýsing á nýjum tækifærum í Öskjuhlíðinni kemur þeim ekki á óvart sem þekkir hana frá blautu barnsbeini og áður en þéttur skógurinn eyðilagði aðgengi að stærstum hluta hennar. 

Í Morgunblaðinu í dag (24. febrúar) segir Hallgrímur Jón Hallgrímsson, yfirverkstjóri Borgarskóga Reykjavíkurborgar, að laugardaginn 22. febrúar hafi hann og menn hans lokið við að fella öll tré sem ákveðið hefði verið að fella á forgangssvæði 1 í Öskjuhlíð til að tryggja flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli. Núna væri „bara eftir að draga út trén af svæðinu og hreinsa það betur upp“.

Hér á síðunni hefur verið fylgst með framvindu þessa máls undanfarin misseri en deila um flugöryggismálið átti ríkan þátt í að meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur splundraðist föstudaginn 7. febrúar.

Skriður komst á grisjunina á meðan unnið var að myndun nýs meirihluta sem birtist með samvinnu fimm flokka föstudaginn 21. febrúar þegar fyrsti áfangi grisjunar 500 trjáa af 1.400 sem ætlunin er að fella var kominn á lokastig.

Leiða má líkur að því að meirihluti innan nýja meirihlutans sé á móti frekara skógarhöggi enda vilja Samfylking, Píratar, VG og líklega sósíalistar flugvöllinn sem fyrst á brott, aðeins fulltrúi Flokks fólksins er flugvallarvinur. Sá flokkur sýnir litla staðfestu þegar völd eru annars vegar eins og sannast hefur undanfarnar vikur.

Í frétt Morgunblaðsins segir að næstu skref verði ákveðin í vikunni, þegar svæðið verði hreinsað og skógarhögg á forgangssvæði 2 undirbúið. Þá er haft eftir Hallgrími Jóni að Öskjuhlíðin verði alls ekki eyðileg þótt skógurinn sé grisjaður svona mikið heldur megi gera þennan hluta hlíðarinnar að „einstöku útivistarsvæði“. Hallgrímur Jón segir:

„Það er mjög gróðursælt þarna og mörg svæðin eru það stór að birtan mun ná vel niður og góð skilyrði fyrir nýjan gróður. Þegar maður lítur yfir svæðið koma í ljós klettar sem hafa verið alveg faldir inni í skóginum og það er ofboðslega fallegt landslag sem kemur í ljós. Það er bara mjög spennandi að sjá hvað verður hægt að gera.“

Þessi lýsing á nýjum tækifærum í Öskjuhlíðinni kemur þeim ekki á óvart sem þekkir hana frá blautu barnsbeini og áður en þéttur skógurinn eyðilagði aðgengi að stærstum hluta hennar. Með því að höggva skóginn er ekki aðeins tryggt flugöryggi heldur einnig opnuð ný leið til að njóta þessarar náttúruperlu. Hún er og hefur verið vanrækt. Sést það meðal annars á því að ekkert er gert til að merkja gönguleiðir í hlíðinni eða að henni úr Hlíðunum þrátt fyrir mikið aðdráttarafl Perlunnar.

Hér eru nokkrar myndir úr góðviðrinu undanfarna daga sem tengjast skógarhögginu:

IMG_1799IMG_1789IMG_1797IMG_1791IMG_1759_1740396574784Endi flugbrautarinnar sem lokaðist vegna trjánna í Öskjuhlíðinni.