30.1.2021 12:07

Ósætti um hálendisfrumvarp

Allt bendir því miður til þess að umhverfis- og auðlindaráðherra fari „of bratt“ í þetta mál til að um það náist sú sátt sem um svo stóra ákvörðun þarf að ríkja.

Í morgun, laugardaginn 30. janúar 2021, var haldinn fjölmennur fundur sjálfstæðisfélaganna í Rangárvallasýslu um hálendisþjóðgarð. Framsögumenn á fundinum voru Guðmundur Viðarsson, bóndi og sveitarstjórnarmaður í Rangárþingi eystra, og Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri Ásahrepps og fulltrúi í nefnd ráðherra um hálendisþjóðgarð. Fundurinn fór fram með fjarfundabúnaðinum Zoom og var fjölmennur.

Þar var meðal annars vakin athygli á samantekt sem birt er á ruv.is í dag um afstöðu sveitarstjórna til málsins. Þar segir:

Fylgjandi: Eyjafjarðarsveit, Hornafjörður, Skaftárhreppur, Skútustaðahreppur, Þingeyjarsveit.

Hlutlaus: Borgarbyggð, Fljótsdalshreppur, Norðurþing

Andvíg: Akrahreppur og Skagafjörður, Árborg, Ásahreppur, Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Húnavatnshreppur, Húnaþing vestra, Múlaþing, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Skeiða- og Gnúpverjahreppur.

Fr_20201229_150836-2-Mörk hálendisþjóðgarðs á korti sem birtist á ruv.is en Sigurður Kristján Þórisson gerði hana.

Hér á síðunni hefur verið nefnd talan 65 þegar fjallað er um fjölda þeirra sem koma að stjórnkerfinu sem ætlað er að koma á fót í kringum hálendisþjóðgarðinn verði frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra að lögum. Á fundinum benti einn ræðumanna á að þessi tala væri of lág, fjöldinn væri 73 að ráðherranum meðtöldum.

Tveir fulltrúar í nefnd ráðherra um hálendisþjóðgarð sem skilaði þverpólitískri skýrslu, Vilhjálmur Árnason alþingismaður og Valtýr Valtýsson, tóku þátt í umræðum á fundinum og sögðu þeir báðir að í frumvarpinu sem nú liggur fyrir alþingi væri gengið gegn tillögum í skýrslunni.

Allt bendir því miður til þess að umhverfis- og auðlindaráðherra fari „of bratt“ í þetta mál til að um það náist sú sátt sem um svo stóra ákvörðun þarf að ríkja. Varla getur það verið markmið ráðherrans að halda þannig á málinu að skellt sé skollaeyrum við viðhorfunum sem birtast í afstöðu ofangreindra sveitarstjórna? Að það sjónarmið ráði að best sé að knýja málið í gegn til þess að losna í eitt skipti fyrir öll við sjónarmið þeirra sem kjörnir eru í sveitarstjórnir? Þrengja að lýðræðislegum vilja í þágu sjónarmiða og valdi sérfræðinga?

Á fundi sjálfstæðismanna hér í Rangarþingi eystra kom fram eindreginn vilji til að leggja sitt af mörkum til að verja hálendið í þágu náttúruverndar þótt enginn mælti með þeirri leið sem umhverfis- og auðlindaráðherra færi að markmiðinu með frumvarpi sínu. Ráðherrann ætti að taka enn eina almenna umræðulotu um málið á grundvelli umsagnanna sem alþingi berast um frumvarpið en frestur til að skila þeim rennur út að kvöldi sunnudags 31. janúar.