Ósætti í Flokki fólksins
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, lýsir því sem svikum við kjósendur að kjörnir fulltrúar sem hafi sagt sig úr flokknum sitji áfram í bæjarstjórn og skipulagsráði Akureyrar.
Fanney Rós Þorsteinsdóttir ríkislögmaður segir í Fréttablaðinu í dag (5. október) að að sættir hafi verið reyndar í kærumáli Magnúsar Davíðs Norðdahls, frambjóðanda Pírata í Norðvesturkjördæmi í alþingiskosningunum fyrir, og Guðmundar Gunnarssonar, frambjóðanda Viðreisnar, sem nú er ritstjóri viðskipta á Fréttablaðinu. Blaðamaður spurði ríkislögmann hvort það fæli í sér viðurkenningu á broti að kanna sættir í málinu. „Segir ríkislögmaður það ekki endilega svo“ segir í blaðinu án þess að ljóst sé hvort þar sé um beina tilvitnun í ríkislögmann að ræða eða túlkun blaðamanns.
Ólíklegt er að ríkislögmaður telji að tilraun til sátta feli í sér viðurkenningu á broti. Viðhorfið sem birtist í tilvitnuðu orðum blaðamannsins er reist á því að í málamiðlun felist undansláttur, mál eigi ekki að leysa á þeim grunni að aðilar séu sammála um að vera ósammála en vilji jarða ágreining.
Engar sættir eru í sjónmáli innan Flokks fólksins um þessar mundir vegna ágreiningsins í bæjarstjórnarflokki hans á Akureyri. Kjörinn bæjarfulltrúi og varamaður hans neita að víkja úr bæjarstjórn þótt þeim hafi verið vikið úr flokknum.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, lýsir því sem svikum við kjósendur að kjörnir fulltrúar sem hafi sagt sig úr flokknum sitji áfram í bæjarstjórn og skipulagsráði Akureyrar.
Á ruv.is var 4. október haft eftir Ingu að það væri „bara algjörlega síðasta sort“ af bæjarfulltrúanum að vilja að stjórn flokksins stæði með sér í deilum hans við þrjár konur á bæjarstjórnarlista flokksins.
Inga Sæland hafnar því að hún og Guðmundur Ingi Kristinsson víki úr formannssætum í Flokki fólksins vegna ofríkis gagnvart bæjarfulltrúa á Akureyri (mynd:mbl.is).
Vegna framgöngu Ingu Sæland og Guðmundar Inga Kristinssonar, varaformanns flokksins, vill Brynjólfur Ingvarsson bæjarfulltrúi að þau víki úr formennsku og varaformennsku í flokknum. Þessu svarar Inga á þennan veg á ruv.is:
„Hann hefur bara ekkert um það að segja, hann er ekki í Flokki fólksins þegar hann er að tala um þessi mál.“
Þá er hún spurð: Finnst þér þessir menn hafa svikið kjósendur á Akureyri? og flokksformaðurinn svarar:
„Algjörlega, algjörlega og brugðist þeim algjörlega.“
Hér skal ekkert fullyrt um hvort um hafi verið að ræða persónulegan stuðning við Brynjólf Ingvarsson eða kjósendur hafi laðast að Flokki fólksins undir stjórn Ingu og félaga þegar þeir kusu til bæjarstjórnar á Akureyri 14. maí 2022. Hitt er víst að Brynjólfur er rétt kjörinn í bæjarstjórn og Inga Sæland rekur hann ekki þaðan þótt hún geti rekið hann úr flokki sínum.
Einkennilegt er að Ingu skuli verða svona tíðrætt um flokksvald sitt í þessu máli þegar til þess er litið að „guðfaðir“ framboðs flokks hennar á Akureyri segist alls ekki hafa verið í flokknum þegar hann fékk Brynjólf til að skipa efsta sæti á listanum.
Uppfært vegna yfirlýsingar ríkislögmanns:
Í yfirlýsingu sem embætti ríkislögmanns sendi frá sér 5. október er áréttað að aldrei hafi verið lagt fram sáttatilboð af hálfu ríkisins vegna málflutnings fyrir MDE í talningarmálinu..
„Íslenska ríkið hefur ekki viðurkennt brot á ákvæðum sáttmálans í þessum málið og er unnið að greinargerð,“ segir í yfirlýsingunni.
Embættið segir almennu regluna þá að fái aðildarríki MDE send mál frá dómstólnum beri aðilum að kanna möguleika á sáttum. Náist þær og dómstóllinn fallist á þær séu málin felld niður. Hægt sé að ná sáttum í máli án þess að ríki viðurkenni brot á ákvæðum mannréttindasáttmálans. Slíkar sáttir séu nokkuð algengar.
„Í samræmi við þetta ferli hefur embætti ríkislögmanns jafnan samband við lögmenn kærenda þegar ný mál berast og kannar mögulegan sáttagrundvöll. Var það einnig gert í málum frambjóðendanna. Engin sáttatilboð voru hins vegar lögð fram af hálfu ríkisins,“ segir í yfirlýsingunni.