8.6.2022 12:07

Öryggisnetið eflt í norðri

Hafa verður auga með öllu sem snertir umsvif rússneska flotans. Pútin kann að nýta sér flotastyrk til að sýna mátt sinn fjúki í öll önnur skjól.

Ben Wallace, varnarmálaráðherra Breta, sat ríkisstjórnarfund með Boris Johnson að morgni þriðjudags 7. júní. Þar hvatti Boris ráðherrana til að bretta upp ermar, enn væri verk að vinna.

Eftir fundinn hélt Wallace til Íslands til fundar í Norðurhópnum svonefnda. Hann lenti á Reykjavíkurflugvelli skömmu fyrir klukkan 17.00 og gekk beint inn í málstofu Hótel Nordica rúmlega 17.00. Þar talaði hann og svaraði fyrirspurnum með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra.

IMG_5114Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Ben Wallace á fundi í Hótel Nordica þriðjudaginn 7. júní 2022.

Ben Wallace er ómyrkur í máli um óhæfuverkin sem Vladimir Pútin stjórnar í Úkraínu. Hann telur varlegt að áætla að 80.000 rússneskir hermenn séu fallnir eða særðir eftir 104 daga stríð í Úkraínu og sambærileg tala kunni að vera um 40.000 hjá Úkraínumönnum, samtals um 120.000 manns. Þetta eru ógnvekjandi tölur og sýna að mati Wallace að Pútin sé sama um mannslíf í æði sínu. Hann láti hakkavél sína murka lífið úr fólki eins lengi og hann telji það þjóna hag sínum og metnaði. Enginn viti hvenær sá bikar verði fullur. Miklu skipti að styðja Úkraínumenn næstu vikur og mánuði til að þeir standi sterkir gagnvart Rússum komi til samninga til að binda enda á stríðið.

Alþingismenn sem sátu fundinn með Ben Wallace komu beint af þingfundi þar sem greidd voru atkvæði um aðild Finnlands og Svíþjóðar að NATO, var tillagan um það samþykkt með 44 atkvæðum, 5 greiddu ekki atkvæði, 14 þingmenn voru fjarstaddir.

Wallace sagði að mannfall væri ekki aðeins óheyrilegt vegna stríðs Pútins heldur hefði her hans orðið fyrir gífurlegu eignatjóni og í ljós kæmi að vopna- og tækjabúnaður landhersins væri úreltur miðað við nútíma hernað. Lýsti varnarmálaráðherrann undrun yfir að til dæmis Indverjar hefðu enn áhuga á að kaupa hergögn af Rússum miðað við hve úrelt þau væru.

Varnarmálaráðherrann beindi athygli að því að sá hluti rússneska heraflans sem ekki hefði skaðast illilega vegna hernaðarins í Úkraínu væri flotinn. Þess vegna yrði að hafa auga með öllu sem snerti umsvif hans. Pútin kynni að nýta sér flotastyrk til að sýna mátt sinn fyki í öll önnur skjól.

Bretar láta nú verulega að sér kveða með flota sínum á N-Atlantshafi eins og sjá mátti nýlega með ferðum nýjasta flugmóðurskips þeirra, HMS Prince of Wales, sem leiddi NATO-æfingu undan strönd Noregs, kom síðan til Reykjavíkur í nokkurra daga heimsókn og sigldi þaðan til Jan Mayen og enn norðar.

Að kvöldi 7. júní hittust Þórdís Kolbrún og Ben Wallace á tvíhliða fundi og ræddu samstarf Íslendinga og Breta í öryggis- og varnarmálum og sameiginlega öryggishagsmuni þjóðanna. Samstarf ríkjanna á þessum sviðum hefur verið eflt á undanförnum árum. Ísland gerðist aðili að Sameiginlegu viðbragðssveitinni (JEF), sem Bretland leiðir, árið 2021. Þá hefur tvíhliða samstarf ríkjanna um öryggis- og varnarmál verið aukið, meðal annars á grundvelli samkomulags þar að lútandi frá árinu 2019.

Að kvöldi 7. júní skrifaði Þórdís Kolbrún undir viljayfirlýsingu með Morten Bødskov, varnarmálaráðherra Dana, um miðlun upplýsinga á milli danskra og íslenskra yfirvalda úr eftirlitskerfum sm ná til norðurhafa.