10.4.2017 20:22

Öryggi og réttarvernd

Þegar hlustað er á sjónarmið Katrínar Theodórsdóttur lögmanns vaknar spurning um hvar séu mörkin milli hagsmuna hennar sem lögmanns sem missti spón úr aski sínum með nýju útlendingalögunum og réttarverndar hælisleitenda.

Í morgun klukkan 07.30 var ég gestur á Morgunvakt á rás 1 og svaraði spurningum Óðins Jónssonar um utanríkis- og öryggismál.

Hér er frétt sem Óðin skrifaði um samtal okkar.

Will van Gemert, varaforstjóri Europol, var gestur í Kastljósi í kvöld. Hann lýsti stöðunni í borgaralegum öryggismálum í Evrópu um þessar mundir.

Hann benti á að staða Íslands hefði breyst vegna fjölgunar ferðamanna og einnig stæðu ungir Íslendingar næsta varnarlausir gagnvart áróðri á netinu. Hvatti hann til aukinnar árvekni almennings og eflingar löggæslu. Hann hefði komið hingað til að ræða við ráðherra og lögreglu og vekja máls á hættunni af hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi.

Í Kastljósi var einnig rætt um Katrínu Theodórsdóttur lögmann sem kvartaði undan því að í nýsettum útlendingalögum væri gengið á hlut lögmanna og þar með vegið að réttaröryggi flóttamanna og hælisleitenda. Samtalið við Katrínu var í framhaldi af gagnrýni Reimars Péturssonar, formanns lögmannafélagsins, í fréttum ríkisútvarpsins sunnudaginn 9. apríl um að að réttaröryggi flóttamanna og hælisleitenda væri ekki nægjanlega tryggt vegna þess hve stuttur frestur væri gefinn til að bera brottvísun þeirra undir dómstóla.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra er ósammála gagnrýni Reimars og sagði í útvarpsfréttum mánudaginn 10. apríl:

„Það kann auðvitað að vera þannig að kjósi menn að fara með mál eftir þessi tvö stjórnsýslustig fyrir dómstóla að þá kunni að vera knappur tími fyrir óvanan lögmann, sem kemur nýr að málinu þá, að setja sig inn í málið. Það verður þó að hafa það í huga að öll vinna við tvö stjórnsýslustig hefur verið unnin af lögfræðingum og gögn þannig undirbúin að það á ekki að vera mikið mál vilji menn bera takmarkaða þætti málsins fyrir dómstóla.

Ég vil geta þess að í síðustu viku kom hingað yfirmaður flóttamannahjálpar SÞ og tók hér út umhverfi hælisleitenda og lýsti yfir mikilli ánægju með allan aðbúnað hér og þá réttarvernd sem hælisleitendur hafa hér á Íslandi, sagði reyndar Ísland vera í fararbroddi í þessum málum í Evrópu.“


Þegar hlustað er á sjónarmið Katrínar Theodórsdóttur lögmanns vaknar spurning um hvar séu mörkin milli hagsmuna hennar sem lögmanns sem missti spón úr aski sínum með nýju útlendingalögunum og réttarverndar hælisleitenda.

Minnumst þess sem gerðist í Stokkhólmi fyrir helgi. Maður sem hafði verið vísað úr landi faldi sig fyrir lögreglu og framdi síðan hryðjuverk í Drottningargötu. Sænska þjóðin og lögreglan hefur áhyggjur af mörg þúsund einstaklingum sem hefur löglega verið vísað á brott en hafa skotið sér undan brottvísuninni.

Skyldi ritstjórn Kastljóss ekki detta í hug í ljósi ummæla viðmælanda sinna í kvöld að kanna hve margir dveljast enn hér á landi þrátt fyrir að hafa verið vísað úr landi?