11.10.2022 11:17

Örvænting Pútins magnast

Stríðsglæpir duga Pútin ekki til sigurs í Úkraínu þótt blóðtaumurinn sem fylgir honum og mönnum hans stækki.

Ravina Shamdasani, upplýsingafulltrúi mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna í Genf, sagði að morgni þriðjudags 11. október að flugskeytaárásir Rússa á borgaraleg skotmörk víðsvegar um Úkraínu mánudaginn 10. október væru stríðsglæpir hefði verið „ásetningur“ rússnesku herstjórnarinnar verið að granda slíkum skotmörkum og almennum borgurum á há-umferðartíma. Skoraði upplýsingafulltrúinn á Rússa að forðast alla stigmögnun slíks ofbeldis.

Peter Stano, talsmaður framkvæmdastjórnar ESB, segir einnig að árásir Rússa „jafnist á við stríðsglæp“.

Joe Biden Bandaríkjaforseti ræddi við Volodymyr Zelenskjí Úkraínuforseta í síma mánudaginn 10. október og lofaði enn meiri stuðningi Bandaríkjamanna við Úkraínumenn, þar með háþróuðum loftvarnakerfum. Þá tilkynnti þýska ríkisstjórnin að hraðað yrði flutningi slíkra kerfa frá Þýskalandi til Úkraínu.

Sergij Kjisljitsja, fastafulltrúi Úkraínu, hjá SÞ í New York flutti ræðu á allsherjarþingi SÞ eftir árásir Rússa og sagði fjölskyldu sína hafa verið í íbúðahverfi í Úkraínu þegar sprengjuárás var gerð á það og henni hefði ekki tekist að leita skjóls í loftvarnabyrgi. Sum skyldmenni hans hefðu fallið. Lýsti hann Rússlandi sem „hryðjuverkaríki“ sem yrði að halda í skefjum með öflugustu úrræðum til að hindra frekari grimmdarverk. Hann bætti við að hvert sinn sem rússneska sendinefndin gengi í sal allsherjarþingsins myndaði hún „blóðtaum“.

QW3DP4IOZVAAPGWKZA7XHTINEMFótum fjör að launa. Hlaupið undan sprengjuregni Rússa á almenna borgara í Úkraínu - árásir gerðir á há-umferðartíma.

Sir Jeremy Fleming, forstjóri GCHQ, netöryggisstofnunar Breta, segir að Rússar séu að missa trúna á stríð Pútins. Hann telur rússneska herinn vera í „örvæntingarfullri stöðu“. Hann segir að alveg andstætt því sem segi um öruggan sigur Rússa í áróðri Pútins og miðla hans sé augljóst að hugrekki Úkraínumanna á vígvellinum og í netheimum hafi snúið vörn þeirra í sókn.

Pútin hafi „illilega misreiknað sig“ tvær meiriháttar hernaðaraðgerðir hans hafi misheppnast. Hann hafi tekið rangar ákvarðanir vegna skorts á gagnrýnum umræðum í æðstu stjórn hans, þar ráði dómgreindarskortur.

Sir Jeremy segir að stofnun sín viti, eins og rússnesku herstjórarnir á vígvellinum, að vistir Rússa og skotfæri séu að þrjóta. Rússnesku hermennirnir séu úrvinda, liðsauki sé fenginn úr fangelsum og nú sýni herkvaðning tugþúsunda óreyndra nýliða örvæntinguna. Þetta fari ekki fram hjá almenningi í Rússlandi sem sjái æ betur hve Pútin hafi verið mislagðar hendur.

Í þessu ljósi ber að skoða flugskeytin 83 sem send voru til að granda almennum borgurum og grunnvirkjum í Úkraínu. Þau voru hefnd vegna skemmdarverk á brú, eins og Pútin sagði, heldur lokahnykkur í tilraun til að hræða Úkraínumenn til undirgefni, þjóna rússneskum öfgaöflum og fæla evrópska ráðamenn frá stuðningi við Úkraínu.

Stríðsglæpir duga Pútin ekki til sigurs þótt blóðtaumurinn sem fylgir honum og mönnum hans stækki.