30.3.2024 11:44

Örlög ráðin 30. mars 1949

Setjum Ísland í stað Kúbu og við sjáum hvílíka aðstöðu Sovétmenn hefðu fengið til að breyta heimsmyndinni með stuðningi grjótkastaranna á Austurvelli 30. mars 1949.

Í dag (30. mars) eru 75 ár liðin frá því að kommúnistar og samherjar þeirra réðust á Alþingishúsið í von um að geta hindrað afgreiðslu þingmanna á tillögu um stofnaðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO). Til allrar hamingju hafði árásarliðið ekki erindi sem erfiði.

ArasinFrá Austurvelli 30, mars 1949, mynd Ólafur K. Magnússon, Morgunblaðinu.

Án aðildar Íslands væri NATO svipur hjá sjón. Fullt heiti bandalagsins er Norður-Atlantshafbandalagið. Í bandalaginu eru þjóðir sem vilja tryggja öryggi beggja vegna hafsins og telja að náin tengsl í varnarmálum sem sameini þjóðir Norður-Ameríku og Evrópu séu besta leiðin til þess. Hugmyndin að bandalaginu er reist á reynslu tveggja heimsstyrjalda. Grunnstefna NATO í varnarmálum er að öflugt varnarkerfi á friðartímum hafi fælingarmátt gagnvart hugsanlegum andstæðingi og haldi honum í skefjum. Þetta var síðast staðfest með uppfærslu á grunnstefnu NATO í Madrid í júní 2022.

Hefðu þeir náð yfirhöndinni við mótun og framkvæmd utanríkisstefnu Íslands sem köstuðu grjóti í Alþingishúsið 30. mars 1949 hefðu þeir hallað sér að þeim sem þeir áttu hugmyndafræðilega samleið með og verið vel fagnað í Moskvu.

Í ævisögu sinni lýsir Nikita Krútsjoff, leiðtogi Sovétríkjanna, hve heltekinn hann var af þeirri hugsun árið 1962 að Fidel Castro kynni að verða bolað frá völdum á Kúbu og hvílíkt áfall það yrði fyrir framgang marxista-lenínista í Rómönsku Ameríku. Hann ákvað því að senda sovéskar kjarnorkuflaugar með leynd til Kúbu í von um að koma Bandaríkjastjórn í opna skjöldu og gjörbreyta heimsmyndinni. Þetta leiddi til Kúbudeilunnar 1962. Sagt er frá henni í bók Max Hastings sem kom út á íslensku fyrir jólin og sagt er fráhér.

Setjum Ísland í stað Kúbu og við sjáum hvílíka aðstöðu Sovétmenn hefðu fengið til að breyta heimsmyndinni með stuðningi grjótkastaranna á Austurvelli 30. mars 1949.

Í þjóðarsál Íslendinga blundar draumurinn um að þeir verði um aldur og ævi í föðurlandi – Með friðsæl býli, ljós og ljóð,/svo langt frá heimsins vígaslóð – þótt sagan kenni annað. Allar umræður meðal þjóðarinnar um nauðsyn þess að tryggja öryggi þjóðarinnar í samræmi við þróun heimsmála hafa mótast af því að viðbúnaður gegn ófriði sé vandamál annarra.

Vitundin um stöðu Íslands á líðandi stundu er brengluð. Háskólaprófessor segir í grein að varnarsamningnum við Bandaríkin frá 1951 hafi verið rift við brottför bandaríska varnarliðsins árið 2006. Fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands heldur að Ísland hætti að skipta máli fyrir öryggi Bandaríkjanna verði Donald Trump kjörinn forseti þeirra.

Pólverjar eru fjölmennir hér á landi. Í þjóðarsál þeirra blundar annað en að fjarlægð frá vígaslóð sé þeim skjól. Þeir eru mun næmari á hættu af stríði en flestar Evrópuþjóðir vegna dýrkeyptrar reynslu. Þess vegna ber að leggja við hlustir þegar Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, bendir á að í Evrópu tilheyri hugtakið stríð ekki fortíðinni, í tvö ár hafi það verið háð í álfunni og nú ríki þar ástand eins og styrjöld sé yfirvofandi, falli Úkraína geti enginn í Evrópu talið sig öruggan. Þessi viðvörun á við Ísland eins og önnur Evrópulönd.