28.6.2024 14:15

Örlagaþrungnar kappræður

Hafi demókratar vonað að í orrahríð í beinni útsendingu gegn Trump gæti Biden (81 árs) kveðið Trump (78 ára) í kútinn urðu þeir fyrir sárum vonbrigðum. 

Nú þegar sannaðist að báðir forsetaframbjóðendurnir í Bandaríkjunum virðast óhæfir til að gegna því háa embætti var hughreystandi að hlusta á fyrstu frétt í átta-fréttum ríkisútvarpsins. Hún snerist um strandveiðar og reiði formanns félags þeirra sem þær stunda yfir því að matvælaráðherra hefði ekki aukið kvótann í sumar nógu mikið og að eitthvað alvarlegt sem gerðist sumarið 2022 kynni að endurtaka sig.

Þetta var hughreystandi vegna þess að það sannaði að hvað sem á dynur bregst ekki fréttamat ríkisfjölmiðilsins. Þeir sem lesa reglulega það sem hér birtist vita að ég er talsmaður þess að ekki sé gengið um of á hlut strandveiðimanna. Ég tel aðför að þeim jafngilda aðför að byggðafestu í landinu en það er margyfirlýst opinbert markmið að tryggja hana. Það myndi til dæmis styrkja forsendur byggðar í Árneshreppi á Ströndum að ýta undir strandveiðar frá Norðurfirði.

Aftur að Biden og Trump. Þeir eru á svipuðum aldri og ég og hvað sem öðru líður ættu þeir báðir að sjá að sér og njóta efri áranna á annan veg en að rífast í sjónvarpi um hvor sé hæfari til að verða forseti Bandaríkjanna. Í einu orði eru þeir báðir óhæfir til þess. Ég segi þetta óhikað enda ekki unnt að saka mig um aldursfordóma.

Án þess að sjá nema brot af því sem frambjóðendunum fór á milli aðfaranótt 28. maí að ísl. tíma er auðvelt að komast að þessari niðurstöðu fyrir utan að allt sem sagt er um umræðurnar í þeim netmiðlum sem ég skoða styður hana.

Hafi demókratar vonað að í orrahríð í beinni útsendingu gegn Trump gæti Biden (81 árs) kveðið Trump (78 ára) í kútinn urðu þeir fyrir sárum vonbrigðum. Í frétt Reuters um kappræðurnar segir meðal annars:

„Djúp óbeit frambjóðendanna hvors í annars garð skein í gegnum allar kappræðurnar og strax í upphafi, þeir tókust ekki í hendur þegar þeir gengu fram á sviðið. Biden kallaði Trump „vælukjóa“ og „barn“ og sagði hann hafa haldið fram hjá konu sinni með klámstjörnu; Trump sagði að Biden væri „ömurlegur“ og „heilaþveginn“ (e. Manchurian candidate), hann tæki Kína fram yfir Bandaríkin. Á einu stigi tóku umræðurnar að snúast um hvor þeirra væri betri í golfi.“

Screenshot-2024-06-28-at-14.15.16Donald Trump og Joe Biden í kappræðum 27. júní 2024.

Í samtölum sögðu áhorfendur að þeim hefði liðið illa undir umræðunum vegna hrumleika Bidens og lyga Trumps sem sló um sig með alls kyns röngum fullyrðingum.

Því er spáð að innan flokks demókrata verði leitað leiða til að fá annan frambjóðanda en Biden fyrir flokksþingið í ágúst þar sem endanleg ákvörðun verður tekin um framboðið. Hugsanlegur sigur Bidens hefur verið talinn ráðast af því hve vel honum gengi að höfða til óákveðinna kjósenda. Sagt er að vonin um árangursríka sókn inn á þau atkvæðamið hafi orðið að engu í kappræðunum þannig að sá kvóti skili sér ekki til demókrata nema með nýjum frambjóðanda.

Hvorki Trump né Biden njóta almennra vinsælda og í báðum flokkum styðja flestir þá af illri nauðsyn og flokkshollustu. Flokkadrættir eru miklir og ótti við upplausn að kosningum loknum setur vaxandi svip á stjórnmálaumræður.