30.11.2018 10:17

Örlagaríkur kráarfundur

Efni fundarins var að fá Ólaf og Karl Gauta til að ganga í Miðflokkinn. Viðrað var við Ólaf að hann yrði þingflokksformaður.

Á vefsíðu alþingis segir að þriðjudaginn 20. nóvember hafi þingfundi verið slitið kl. 21.36. Sama kvöldið, líklega að loknum þingfundi, hittust sex þingmenn á veitingastaðnum Klaustri skammt frá þinghúsinu. (Uppfært innskot af dv.is kl. 17.00 fimmtudaginn 29. nóvember: „Samkvæmt heimildum DV hófst upptakan kl. 20:39 þriðjudagskvöldið 20. nóvember. Þingmennirnir voru sestir þegar óþekktur aðili úr röðum almennra borgara hóf að taka þá upp. Um er að ræða sjö upptökur, alls 3 klukkutímar og 41 mínúta að lengd, fyrir utan stuttar myndbandsupptökur af þingmönnunum sex.“) Þingmennirnir héldu „óþekkta aðilann“ útlending.

Þetta var hins vegar Íslendingur sem varð svo forviða þegar hann heyrði orðbragðið og níðangurslegt tal um konur og fatlað fólk í þessum hópi manna þar sem hann þekkti aðeins Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrrv. forsætisráðherra, í sjón að hann ákvað að nota síma sinn sem upptökutæki við barborðið. Að kvöldi miðvikudags 28. nóvember birtust útskriftir af upptökunum á vefsíðum Stundarinnar og DV.

Þarna var forystusveit Miðflokksins: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður, Gunnar Bragi Sveinsson, 1. varaformaður og þingflokksformaður, Anna Kolbrún Árnadóttir, 2. varaformaður, og Bergþór Ólason, varaformaður þingflokks. Frá Flokki fólksins voru  Ólafur Ísleifsson þingflokksformaður og Karl Gauti Hjaltason, varaformaður þingflokksins.

EE7FF0B47A99F848F394EC346860B3F976624C59FABF56427E8B625C728C2BDE_713x0Þau sátu kráarfundinn 20. nóvember: Karl Gauti Hjaltason, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Kolbrún Árnadóttir. Myndin er fengin af visir.is

Efni fundarins var að fá Ólaf og Karl Gauta til að ganga í Miðflokkinn. Viðrað var við Ólaf að hann yrði þingflokksformaður. Þingflokksformaður Miðflokksins, Gunnar Bragi, var með hugann við sendiherraembætti. Hann fór mikinn um hvernig hann stóð að því að skipa Árna Þór Sigurðarson og Geir H. Haarde í stöður sendiherra og gaf til kynna að þess vegna ætti hann eitthvað inni hjá VG og sjálfstæðismönnum.

Fimmtudaginn 29. nóvember áréttaði Gunnar Bragi í útvarpsviðtali áhuga sinn á að verða sendiherra. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði Sjálfstæðisflokkinn ekki skulda Gunnari Braga neitt, ekki stæði til að skipa hann sendiherra.

Inga Sæland, stofnandi, formaður og drifkarftur Flokks fólksins, vill að Ólafur og Karl Gauti víki úr flokknum og stjórn flokksins vill að þeir segi af sér þingmennsku.

Steingrímur J. Sigfússon þingforseti lýsti því sem gerðist á fundinum 20. nóvember sem „hryllilegum atburði“.

Stefnt er að því að ræða málið í forsætisnefnd alþingis mánudaginn 3. desember. Þá vill Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður þingflokks Pírata, virkja siðanefnd alþingis. Þetta eru kerfisleg viðbrögð. Þingmenn sækja umboð sitt til kjósenda, almennings, bregðist þeir trausti þeirra eiga þeir að víkja. Með því að vísa þessu hneyksli til nefnda er því drepið á dreif.