13.10.2019 10:37

Örlagarík brexit-helgi

Hér skal ekkert fullyrt um brexit-niðurstöðuna en nú um helgina kann hún að ráðast og síðan verði vikan notuð til að vinna henni brautargengi í Bretlandi og á vettvangi ESB.

Þáttaskil urðu föstudaginn 11. október 2019 í brexit-ferlinu sem hófst eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna í Bretlandi í júni 2016. Aðalsamningamenn Breta og ESB hittust á morgunverðarfundi. Þeir fóru yfir niðurstöðu á fundi forsætisráðherra Bretlands og Írlands fimmtudaginn 10. október. Að morgunverðarfundinum loknum fór aðalsamningamaður ESB á fund sendiherra 27 aðildarríkja ESB og fulltrúa ESB-þingsins. Hann gerði grein fyrir framvindu mála og fékk umboð til að halda áfram á sömu braut. Ákveðið var að efna til þess sem á ESB-máli kallast tunnel-viðræður yfir helgina.

Með því að tala um tunnel - göng - er vísað til þess að samninganefnd ESB hafi umboð til að ræða og finna lausn á málum án þess að gera sendiherrum eða fulltrúum ESB-þingsins frá gangi mála fyrr en upp er staðið að lokum. Vafalaust er margt fleira undir í viðræðunum en spurningin um landamæri eða ekki landamæri milli Írska lýðveldisins og Norður-Írlands. Athygli hefur þó einkum beinst að því ágreiningsmáli. Að lokum verða allir hlutar myndarinnar að falla á sinn stað.

BrexÞegar Theresa May reyndi sem forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins að ná meirihluta á þingi til stuðnings samningi sínum við ESB mátti treysta því að Jacob Rees-Mogg, flokksbróðir hennar og forystumaður í hópi ESB-andstæðinga, risi á fætur með neyðarlega athugasemd eða bein andmæli. Nú situr hann í ríkisstjórn Boris Johnsons og kemur fram fyrir hennar hönd í neðri málstofu þingsins.

Jacob Rees-Mogg ritar í dag (13. október) grein í The Sunday Telegraph og hvetur ESB-útgöngusinna til að styðja Boris, hann sé einn af þeim og honum megi treysta þótt að lokum sé „óhjákvæmilegt að finna málamiðlun“.

Undir forystu Boris Johnsons hafa Bretar sótt fram af meiri festu en áður og nú undir þrýstingi um útgöngu án samnings fimmtudaginn 31. október. Hér skal ekkert fullyrt um brexit-niðurstöðuna en nú um helgina kann hún að ráðast og síðan verði vikan notuð til að vinna henni brautargengi í Bretlandi og á vettvangi ESB.

Breska þingið hefur verið boðað til sérstaks fundar laugardaginn 19. október til að taka afstöðu til málsins. Án nýrrar afstöðu þingsins ber Boris Johnson að hlíta þeirri ákvörðun þess að fara fram á lengri frest frá ESB en til 31. október. Það er eitur í hans beinum.