9.4.2019 9:31

Orkupakki til umræðu frá 2010

Undir lokin greip hann til þeirra raka sem algeng eru hjá þeim sem vita lítið að óska eftir lengri tíma til umræðna.

Umræður um þriðja orkupakkann í Kastljósi að kvöldi mánudags 8. apríl báru með sér að Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, hafði ekki kynnt sér málið á þann veg að hann væri í raun viðræðuhæfur. Undir lokin greip hann til þeirra raka sem algeng eru hjá þeim sem vita lítið að óska eftir lengri tíma til umræðna.

Þetta mál hefur verið á döfinni innan íslenska stjórnkerfisins frá árinu 2010. Þegar Gunnar Bragi Sveinsson, núv. varaformaður Miðflokksins, var utanríkisráðherra á árinu 2014 beitti hann sér fyrir því að þingnefndir tóku afstöðu til málsins og liggja álit þeirra fyrir. Á grundvelli þeirra varð málið síðan að EES-máli árið 2017 og þar með skapaðist skuldbinding fyrir íslensk stjórnvöld til að afgreiða málið.

Althingi-althingiEinar Þorsteinsson, stjórnandi Kastljóss, virtist ekki gera sér grein fyrir þessu og lét eins og málið skipti engu fyrir íslenska hagsmuni og kom þá með tugguna um járnbrautir og skipaskurði og lét eins og engin lög hefðu verið samþykkt um það efni hér. Þar taldi hann sig líklega á öruggum stað af því að Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrv. utanríkisráðherra, hefur slegið um sig með yfirlýsingum í þessa veru. Þær eru einfaldlega rangar eins og menn geta auðveldlega kynnt sér með því að skoða þingtíðindi.

Einar valdi einnig nokkur orð úr vangaveltum Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts í álitsgerð þeirra fyrir utanríkisráðuneytið og gaf til kynna að þar væri að finna efasemdir um stjórnlagagildi innleiðingar þriðja orkupakkans. Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Stefán Má og þar stendur meðal annars:

„Við innleiðum tilskipunina en frestum gildistökunni. Alþingi lofar sjálfu sér því að ef grunnvirki [sæstrengur] verða áformuð þá fari þetta í ferli og þar með í stjórnarskrárferli. Gildistökunni er einfaldlega frestað,“ sagði Stefán Már í samtali við Morgunblaðið. En stenst þetta ákvæði stjórnarskrána? „Við teljum það af því að þetta er innleitt en lögin koma ekki til framkvæmdar fyrr en ef tekin verður ákvörðun um að leggja sæstreng. Við erum í rauninni að fresta ákvarðanatökunni, þar með talið því sem lýtur að stjórnarskránni.“

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti á sínum tíma efasemdum um innleiðingu þriðja orkupakkans og lagði lista með spurningum fyrir utanríkisráðherra um málið. Svörin hafa verið birt og málesa þau hér. Allir áhugamenn um þetta mál ættu að kynna sér spurningarnar og svörin til að glöggva sig á efni málsins.