11.12.2023 9:33

Orkuhöft skapa hættu

Um 1930 voru höft sett vegna kreppunnar miklu og árið 2008 vegna fjármálahrunsins mikla. Nú koma orkuhöft hins vegar til sögunnar vegna heimatilbúins vanda.

Umsagnir um orkuskömmtunarfrumvarp atvinnuveganefndar alþingis eru á þann veg að á forsíðu Morgunblaðsins birtist í dag (11. des.) frétt þess efnis að líklegt sé að frumvarpið taki breytingum fyrir lokaafgreiðslu þess.

Í umræðum um málið hefur verið bent á að í stað þess að flytja neyðarfrumvarpið vegna hættu á að heimili verði orkulaus væri nær að fram kæmi neyðarfrumvarp til að ryðja undirrót hættuástandsins úr vegi. Í umsögn Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, um frumvarpið segir meðal annars að Landsvirkjun vilji taka skýrt fram að þrátt fyrir að veita eigi leyfi til að beita skömmtunarvaldi til skamms tíma telji fyrirtækið „afar mikilvægt að hratt verði unnið að því að undirbyggja raforkuöryggi til lengri tíma“.

Þarna er orðalag sem lýsir ástandi sem fer ef til vill fram hjá einhverjum vegna skorts á lesskilningi. Með orðunum „undirbyggja raforkuöryggi“ á forstjórinn við að Landsvirkjun fái leyfi til að virkja meira. Orðalagið er í ætt við að í greinargerð atvinnuveganefndar með frumvarpinu umdeilda var talað um að „umframeftirspurn“ hefði leitt til þeirra vandræða sem við blöstu. Þarna hefði til skilningsauka átt að nota orðið orkuskort.

Í umsögn sinni varar forstjóri Landsvirkjunar einnig við að hér skapist viðvarandi orkuskortur. Hann orðar þá hugsun á þann veg að það myndi meðal annars brjóta gegn samkeppnislögum ætti Landsvirkjun ávallt að hafa tilbúna til sölu orku sem tryggði hlutdeild heimila og minni fyrirtækja í samræmi við hlutdeild í heildarvinnslu orku á Íslandi.

Screenshot-2023-12-11-at-09.32.13

Saga hafta á Íslandi er víti til að varast. Höft á innflutning, verðlag og gjaldeyri sem sett voru um 1930 giltu í einni mynd eða annarri þar til samið var um aðild að evrópska efnahagssvæðinu 60 árum síðar. Gjaldeyrishöft sem sett voru haustið 2008 vegna hruns fjármálakerfisins áttu að standa í 8 til 10 mánuði en voru ekki afnumin endanlega fyrr en um áratug síðar. Þá hafði verið reynt að nota þau til að knýja á um aðild að ESB og upptöku evru.

Um 1930 voru höft sett vegna kreppunnar miklu og árið 2008 vegna fjármálahrunsins mikla. Nú koma orkuhöft hins vegar til sögunnar vegna heimatilbúins vanda, bákns og regluverks sem reist hefur verið til að bregða fæti fyrir nýtingu auðlinda jarðar af núverandi kynslóð þótt hún gangi með því ekki á rétt komandi kynslóða. Ein af rökunum fyrir regluverkinu er sjálfbærni. Í raun er regluverkið misnotað gegn sjálfbærni af fólki sem lætur að sér kveða undir merkjum samtaka eins og Landverndar sem verða öfgafyllri eftir því sem þrengir að málstað þeirra.

Verði skömmtunarfrumvarp atvinnuveganefndar alþingis til þess að opna augu fleiri en áður fyrir því í hvert óefni stefnir í orkumálum þjóðarinnar hefur það orðið til nokkurs gagns.