Orðspor ferðamannalandsins
Það má því segja að skammt sé öfganna á milli í sama breska blaðinu um Ísland sem ferðamannaland. Tilefni neikvæðu greinarinnar nú er fall flugfélagsins Play.
Tölfræði kann að sýna að breskir blaðamenn sem segja ferðamannabóluna sprungna á Íslandi hafi rangt fyrir sér. Veruleikinn ræður þó að lokum. Á vefsíðunni Telegraph birtist fréttaskýring um gat á bólunni sunnudaginn 12. október eftir Robert Jackman. Hann segir meðal annars:
„Þótt ferðamannafjöldi á Íslandi hafi aukist gríðarlega á öðrum áratug aldarinnar hefur hægst verulega á síðustu árum. Ferðamálastofa landsins segir að erlendum gestum hafi fækkað um 6% á síðasta ári. Og það var ekki eins og staðan hefði verið blómleg áður en það gerðist: gestafjöldinn árið 2023 var enn lægri en hann var fyrir heimsfaraldurinn.
Til að skýra orsakir samdráttarins benda sérfræðingar á minnkandi eftirspurn frá tveimur stærstu ferðaþjónustumörkuðum Íslands, þ.e. gestum frá Bretlandi og Bandaríkjunum. Þessi tvö enskumælandi lönd eru venjulega uppspretta tæplega helmings allra erlendra gesta á Íslandi – en svo virðist sem ferðalangar séu í auknum mæli að fá bakþanka.“
Nú að morgni þriðjudagsins 14. október hafa 185 athugasemdir birst við þessa neikvæðu grein um þróun íslenskra ferðamála. Lestur þeirra sýnir að kostnaður við að ferðast hér sé úr öllu hófi, auk þess er tónninn almennt í samræmi við neikvætt viðhorf blaðamannsins.
Í The Telegraph birtist laugardaginn 9. ágúst grein eftir Amöndu Statham, sérhæfða blaðakonu um ferðamál. Hún hefur heimsótt meira en 70 lönd á 20 ára ferli sínum og er sögð vera sérstaklega veik fyrir eyjum. Þar setur hún Ísland í hóp paradísareyja og mælir með ferð hingað í september.
Hún segir að sumum kunni að þykja það úr leið að nefna Ísland meðal paradísareyja en vinsældir landsins aukist mikið. Löng dagsbirta, hlýindi en ekki ofsahiti, stuttur flugtími og eldgosalandslag, eins og úr öðrum heimi, dragi mjög að ferðamenn. Hún nefnir hvalaskoðun, hveraböð eins og Bláa lónið fyrir utan að kannski sjáist norðurljós (mars og september séu bestu mánuðirnir) auk þess sé Reykjavík „kúl“ höfuðborg í orðsins fyllstu merkingu. Allt þetta mælir með Íslandi á listanum yfir 25 eyjar og meira en það.

Það má því segja að skammt sé öfganna á milli í sama breska blaðinu um Ísland sem ferðamannaland. Tilefni neikvæðu greinarinnar nú er fall flugfélagsins Play. Fyrstu viðbrögð forsætisráðherra og fjármálaráðherra voru á þann veg að áhrifin af gjaldþroti Play væru minni en vegna gjaldþrots flugfélagsins Wow.
Allar yfirlýsingar í þá veru breyttu engu fyrir þá sem urðu fyrir tjóni vegna stöðvunar á rekstri Play. Yfirlýsingarnar voru í besta falli út í hött. Orðsporið skiptir ekki minna máli eins og nú birtist. Það hefur greinilega skaddast. Þá hefur misvitur innviðaráðherra gripið til reglusetningarvaldsins og beitt því á þann hátt að forstjóri Icelandair telur ráðherrann valda miklu tjóni.
Ferðaþjónustan hefur talsmann sem lætur verulega að sér kveða innanlands, vafalaust tekur hann blaðamann Telegraph á beinið. Hitt er verra að hér sitjum við uppi með ráðherra sem bregðast við alvarlegum hnekki fyrir mikilvæga atvinnugrein með því að gera lítið úr honum eða þeir gera illt verra með illa ígrunduðum reglum sem bitna á þeim sem berjast í þröngri stöðu.