Orðljótur þingforseti
Fjölmiðlar hefðu ekki birt þessi ummæli nema vegna þess að þau eru forkastanleg á þeim stað sem þau féllu og hver eigandi þeirra er.
Í 5. gr. c-liðar siðareglna fyrir alþingismenn segir að þeir skuli, sem þjóðkjörnir fulltrúar, „ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni“. Í 7. gr. reglnanna segir: „ Þingmenn skulu í öllu hátterni sínu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virðingu. Í 8. gr. segir að þingmenn skuli ekki koma fram við aðra þingmenn á „vanvirðandi hátt“.
Þegar alþingi var sett að loknu sumarhléi 9. september 2025 flutti Þórunn Sveinbjarnardóttir þingforseti ræðu. Hún rifjaði upp atvikið 14. júlí 2025 þegar hún ákvað að beitt skyldi 71. gr. þingskapalaga til að stöðva umræður um mál. Þórunn sagði það vissulega hafa verið „vonbrigði að samningaleiðin reyndist ekki fær“ og af því þyrfti „þingheimur að draga lærdóm, bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar“. Hún sagðist meðvituð um að sem forseti þyrfti hún „að endurvinna traust margra“ þingmanna, að því ætlaði hún „að vinna af heilindum“.
Við upphaf þingfundar kl. 13.00 í gær (5. des) ræddu þingmenn undir liðnum fundarstjórn forseta um málefni tengd samgönguáætlun og framlagningu hennar á þingi. Þegar ræður höfðu verið fluttar í tæpar 20 mínútur gerði Þórunn Sveinbjarnardóttir hlé á fundi og sagði í vitna viðurvist um leið og hún fór af forsetastóli: „Ég er komin með nóg. Djöfulsins, helvítis, andskotans pakk.“
Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti alþingis (mynd: mbl.is).
Líklega er þetta einsdæmi í sögu alþingis eftir að það var endurreist 1845 eftir mikla niðurlægingu í lok 18. aldar þegar þingið hraktist frá Þingvöllum til að forða þingmönnum frá kulda og vosbúð í gisnum kofa. Nú búa þingmenn við annars konar niðurlægingu og hana af hálfu sjálfs þingforsetans, þrátt fyrir loforð um bót og betrun við setningu þingsins í september.
Hér var því haldið fram að Þórunn Sveinbjarnardóttir yrði að víkja úr embætti forseta til að skapa frið um þingstörf eftir ofríkið sem hún beitti 14. júlí. Er furðulegt hvað þingmenn sýna henni mikið langlundargeð. Nú tekur hins vegar steininn úr þegar framkoma hennar á leið úr forsetastóli samræmist ekki ákvæðum í siðareglum þingmanna.
Í Morgunblaðinu í dag (5. des.) láta þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar Ingibjörg Isaksen, Ólafur Adolfsson og Sigríður Á. Andersen eins og það skipti máli hvort þau heyrðu blótsyrðin sjálf eða ekki. Ingibjörg segir: „Okkur getur öllum orðið á og við erum öll mannleg.“ Sigríði finnst orðin ekki viðeigandi og Ólafur harmar að orðin hafi fallið.
Fjölmiðlar hefðu ekki birt þessi ummæli nema vegna þess að þau eru forkastanleg á þeim stað sem þau féllu og hver eigandi þeirra er. Þingmenn setja sér siðareglur til að framganga af þessu tagi kalli á mat af ráðgefandi nefnd fyrir forsætisnefnd þingsins. Fari málið ekki í slíkt matsferli virkar siðareglukerfi þingsins alls ekki.
Þingforseti sem ber þann hug til minnihlutans á alþingi sem birtist í blótsyrðunum er óhæfur til að sameina þingheim að baki sér. Þessi fyrirlitning þingforseta birtist í verki 14. júlí 2025 og í loftinu liggur að forsetinn ætli að beita þeim refsivendi að eigin geðþótta að nýju síðar.
Ætlar allur þingheimur að vera á sama plani og þingforsetinn?