20.9.2018 21:03

OR-draumur breytist í martröð

Af hálfu meirihlutaflokka í borgarstjórn undanfarin átta ár hefur Orkuveitu Reykjavíkur verið hampað sem krúnudjásninu.

Hér hefur nokkrum sinnum verið vikið að því á undanförnum vikum að eitthvað sé bogið við yfirstjórn Reykjavíkurborgar sé tekið mið af því sem dómarar og eftirlitsaðilar hafa sagt í úrskurðum sínum. Þá hefur einnig vakið athygli hvernig embættismenn í ráðhúsinu beita sér gagnvart borgarfulltrúum bæði vegna funda í borgarstjórn og borgarráði.

69873986

Af hálfu meirihlutaflokka í borgarstjórn undanfarin átta ár hefur Orkuveitu Reykjavíkur verið hampað sem krúnudjásninu, sönnuninni fyrir því hve þessir flokkar hafi innleitt góða stjórnarhætti. Þessi draumur breyttist í martröð á örskömmum tíma.

Í gær (20. september) var borgarráðsfundur. Á ruv.is segir:

„Borgarfulltrúar hafa fengið fjölda ábendinga frá núverandi og fyrrverandi starfsmönnum Orkuveitu Reykjavíkur í kjölfar þess að framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar var rekinn vegna óviðeigandi framkomu við samstarfsfólk. Þetta var rætt á fundi borgarráðs í morgun [20. september] en fulltrúar úr stjórn Orkuveitunnar mættu á fundinn og upplýstu borgarfulltrúa um stöðu mála.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir málið stærra en það sem þegar hafi komið fram.

„Bæði starfsmenn fyrrverandi sem hafa haft samband og fleira, nú kynferðislegt áreiti hefur mikið verið rætt en það er líka talað um mikla starfsmannaveltu, það hafa mjög mikið af stjórnendum hætt og það virðist eitthvað vera að kúltúrnum og borgin á meirihlutann í Orkuveitunni og ber þar af leiðandi ábyrgð á því að þetta sé í lagi,“ segir hann.

Ertu þá að segja að það séu fleiri mál þarna sem eiga eftir að koma upp á yfirborðið?

„Mér finnst það mjög líklegt því það er nú oft þannig að þegar svona kúltúr er þá er ekki ein báran stök og þessi rannsókn þarf einmitt að ná utan um núverandi starfsmenn og fyrrverandi starfsmenn og ég á von á að það verði bara gert,“ segir Eyþór.

Hann segir augljóst að mál sem þessi hafi fengið að viðgangast hjá Orkuveitunni. Hann telur jafnframt ástæðu til að skoða önnur fyrirtæki og stofnanir borgarinnar því fjöldi ábendinga hafi einnig borist um önnur fyrirtæki en Orkuveituna.“

Þá segir einnig á ruv.is:

„Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs tekur undir þetta og segir að ábendingum verði beint til þess óháða aðila sem fer með úttektina á Orkuveitunni. „Við höfum fengið alls kyns sendingar frá fyrrverandi starfsmönnum, núverandi starfsmönnum og fleirum í öðrum fyrirtækjum,“ segir hún. „Þetta verður gríðarlega umfangsmikil úttekt og það er alveg ljóst að þar verða í forgrunni starfsmenn,“ segir hún.“

Sem betur fer er óvenjulegt að svona sé talað um starfshætti innan opinberra stofnana en af þessum orðum verður ekki annað ráðið en allt sé í raun í kaldakoli innan dyra í hálfónýtu Orkuveituhúsinu. Formaður borgarráðs talar auk þess um önnur fyrirtæki án þess að tíunda þau nánar.

Í ljós kemur að vandræðin í ráðhúsinu eru aðeins toppurinn á ísjakanum. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri getur þó ekkert sagt af því að hann hefur ekki fengið skýrslu um málið.