17.9.2017 11:21

Opnir stjórnarhættir - klíkuveldi Pírata

Öll skjöl sem fara fyrir forseta Íslands til undirritunar eru afgreidd á ríkisstjórnarfundi. Á þann veg er upplýsingum um uppreist æru miðlað til allra ráðherra.

 

Vegna samsæriskenninganna um að farið hafi verið með upplýsingar vegna uppreistar æru á þann veg innan stjórnkerfisins að óeðlilegt sé af því að ráðherrar hafi átt aðgang að meiri upplýsingum en aðrir er nauðsynlegt að hafa þetta í huga:

Öll skjöl sem fara fyrir forseta Íslands til undirritunar eru afgreidd á ríkisstjórnarfundi. Á þann veg er upplýsingum um uppreist æru miðlað til allra ráðherra. Hafi þeir áhuga á að kynna sér einstaka þætti málsins er þeim það heimilt og geta óskað eftir þeim skjölum sem þeir kjósa. Mín afstaða hefur verið að ekki eigi að hvíla nein leynd yfir því hverjir votta fyrir réttmæti þess að orðið sé við óskum umsækjenda. Hefði það gerst í minni ráðherratíð að einhver ráðherra hefði beðið um að fá að sjá undirgögn að baki tillögu til forseta Íslands um uppreist æru hefði afgreiðslu máls í ríkisstjórn verið frestað.

Í tilefni alls þess sem fór af stað fyrr í sumar vegna Roberts Downeys vildi ráðuneytið hafa vaðið fyrir neðan sig og fá niðurstöðu hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem setti skilyrði fyrir opinberri birtingu gagna í málinu. Að mínu áliti gilda þær takmarkanir ekki gagnvart ráðherrum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, var forsætisráðherra í september 2016 þegar þessi mál fóru í gegnum ríkisstjórn og til forseta til undirritunar. Trúnaður ríkir um það sem gerist á ríkisstjórnarfundum. Að sjálfsögðu er löglegt að segja frá dagskrármálum þótt trúnaður ríki út á við um gögn sem búa að baki einstökum málum. Núverandi dómsmálaráðherra hefur stöðvað allar afgreiðslur umsókna um uppreist æru og vinnur að breytingum á lögum til að efni þeirra falli að viðhorfum samtímans.

Í málum af þessu tagi hafa ráðherrar að jafnaði treyst því að embættismenn sem fara með afgreiðslu viðkvæmra mála fari að lögum. Ekkert í þeim málum sem til umræðu eru hér og nú sýnir að lög hafi verið brotin. Á hinn bóginn hefur komið skýrt í ljós að þingmenn allra flokka telja lögin ekki í takti við tíðarandann og þeim verði að breyta.

Upphaflega er lagaákvæðið hugsað sem varnagli, þrátt fyrir að hafa tekið út refsingu sína fái menn ekki full borgararéttindi fyrr en að ákveðnum skilyrðum sé fullnægt. Stendur vilji þingmanna til að afnema þessi skilyrði eða búa þannig um hnúta að sumir afbrotamenn fái aldrei full borgararéttindi? Spurningum af þessum toga er ekki varpað fram heldur snúast umræður á stjórnmálavettvangi um að sverta mannorð andstæðinga sinna.

Þessi boðskapur er tekinn af vefsíðu Pírata. Lesið það sem þarna stendur og berið saman við málflutning þingmanna og annarra forystumanna flokksins eða hvernig staðið er að vali í trúnaðarstöður innan hans. Munurinn á milli orða og efnda er svo mikill að annað eins hefur ekki verið borið á borð í íslenskum stjórnmálum.

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, hefur gengið lengst í að sverta mannorð andstæðinga sinna og virðingu þjóðarinnar út á við með færslu á ensku um þjóðkunnan breskan barnaníðing í samhengi við stjórnarslitin. Hann varð sér til minnkunar og vonandi verða kjósendur í kjördæmi hans minntir á hvað hann telur sér sæma að segja í stjórnmálabaráttunni. Hann á ekkert erindi á alþingi að nýju.

Fyrir kosningarnar í október 2016 var framvindan við val frambjóðenda Pírata sérkennileg og bar þess merki að lítil klíka teldi sig hafa ráð flokksins í hendi.

Birgitta Jónsdóttir ætlar að hætta á þingi og á Facebook má sjá að um valdaskipti verður að ræða innan Pírata. Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrv. þingamaður flokksins, tekur við keflinu af Birgittu. Nú er ekki sett á svið nein leiksýning með prófkjörum og öðru slíku heldur ræða nokkrir Píratar saman fyrir luktum dyrum og ákveða næsta foringja sem skrifar lofgrein um Birgittu og stað hennar í sögubókum framtíðarinnar.

Þetta er fólkið sem telur sig helstu talsmenn opinna stjórnmála og lýðræðis. Fulltrúar Pírata hrópa hæst á allt innan stjórnsýslunnar fari fram fyrir opnum tjöldum. Það á greinilega við aðra en þá sjálfa. Hvergi er leyndin,  pólitíska sjálftakan og klíkuveldið meira.