25.8.2018 10:13

Opinber varúð og landsdómur

Fyrir 10 árum stigu þeir sem ábyrgð báru og héldu um púlsinn á fjármála- og bankamálum varlega til jarðar í opinberum umræðum.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag er farið orðum um vanda íslenskra flugfélaga vegna ummæla sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra hafa látið falla í umræðum um málið.

Í Reykjavíkurbréfinu segir:

„Það er langt teygt að segja að opinber samtöl við forsætisráðherra og samgönguráðherra um stöðu félaga í flugrekstri hafi verið hjálpleg. Betra hefði verið að samtöl á efstu rim stjórnkerfisins hefðu farið hljótt aðeins lengur. Kannski var ekki kostur á því og því fór sem fór.

Þeir sem voru í vafa um veika stöðu flugrekstrar voru vafalausir eftir þau samtöl. Þeir sem fylgjast betur með sannfærðust eftir þetta um að sennilega væri styttra út á ystu nöf en gott er.“

Þarna er í hnotskurn vikið að vanda þeirra sem bera mikla pólitíska ábyrgð. Ummælin hér að ofan leiða einnig hugann að því sem gerðist fyrir réttum 10 árum. Þá stigu þeir sem ábyrgð báru og héldu um púlsinn á fjármála- og bankamálum varlega til jarðar í opinberum umræðum til að rugga ekki bátnum þótt viðvörunarljós blikkuðu.

Keflavikurflugvollur-550x300Líklegt er að í haust og næstu mánuði birtist útlistanir og bækur sem lýsa því sem gerðist fyrir réttum 10 árum.

Ef til vill er nú nægur tími liðinn til að líta atburðina í stærra samhengi en gert var þegar menn sátu við skriftir í rústum hrunsins og létu tilfinningu stundum ráða meiru en staðfesta vitneskju.

Hrun fjármálakerfisins minnir á hrun Berlínamúrsins árið 1989. Þá urðu margir alþjóðastjórnmálafræðinga, sérhæfðir í rannsóknum á samskiptum austurs og vesturs, jafnundrandi og allur almenningur þegar fólk streymdi til vesturs í Berlín yfir rústir múrsins.

Pólitísk þróun eftir-hruns-áranna hefur ekki verið greind af kostgæfni. Þar skiptir landsdómsmálið miklu. Það er óuppgert á þann veg sem vert er. Uppgjör mundi splundra samstarfi ráðandi stjórnmálaafla, samstarfi sem er óhjákvæmilegt að baki starfhæfri ríkisstjórn.

Niðurstaða meirihluta landsdóms var að forsætisráðherra hefði brotið gegn stjórnarskránni með að láta ekki bóka í fundargerð ríkisstjórnarinnar að eitthvað kynni að fara úrskeiðis í bankakerfinu. Ef til vill taka forsætisráðherra og samgönguráðherra mið af þessari niðurstöðu landsdóms í opinberum frásögnum um vanda flugfélaganna? Hvað skyldi bókað hjá ríkisstjórninni?