5.7.2019 11:40

Öngþveiti á Nauthólsvegi

Engin lausn er í sjónmáli á þeim vandræðum sem til var stofnað með því að skapa þetta umferðaröngþveiti.

Hér á síðunum geta menn séð hver afstaða mín var í borgarstjórn Reykjavíkur þegar ákveðið var að ráðast í stórframkvæmdir við Nauthól, endastöð við Fossvoginn. Spáði ég því að ástandið yrði eins og Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir við Morgunblaðið í morgun (5. júlí):

„Allir vagnar á þessu svæði eru stopp á ákveðnum tíma dagsins sem setur allt úr skorðum.“ Þarna sé versta umferðarteppan í borginni.

Í fréttinni segir. „Sitja vagnar Strætó, sem m.a. þurfa að keyra að Háskólanum í Reykjavík við Nauthólsveg, þá fastir í umferð og setur það áætlun þeirra úr skorðum. Þegar mest er segir Jóhannes Svavar fjóra vagna stopp vegna umferðarvandans.“

Engin lausn er í sjónmáli á þeim vandræðum sem til var stofnað með því að skapa þetta umferðaröngþveiti, ekki minnkar það með stúdentaíbúðunum sem á að reisa við Nauthólsveg.

Líklega styttist í að krafa kemur um að vegur verði lagður með Fossvogi fyrir neðan kirkjugarðinn út á Kringlumýrarbraut. Úr því að meirihluti borgarstjórnar er tekinn til við að sækja með mannvirki inn í Elliðárdalinn og hefur ekki einu sinn fyrir samráði við umhverfisyfirvöld vílar hann ekki fyrir sér að mæla með akbraut við Fossvoginn.

AsatrFyrir austan Háskólann í Reykjavík stendur grunnur og hluti útveggja að hofi Ásatrúarmanna. Þá skortir fé til að halda áfram byggingarframkvæmdum og er þetta umgirta sár í Öskjuhlíðinni engum til yndisauka sem leggur leið sína fram hjá því.