3.3.2023 10:20

Ömurleg blaðamennska

Það sem Magnús Ragnarsson lýsir í athugasemd sinni á ekkert skylt heiðarlega blaðamennsku heldur snýst um eitthvað allt annað.

Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri miðla Símans, sá sig knúinn til að gera athugasemd (27. febrúar) á vefsíðunni Heimildin vegna fréttar sem Ingi Freyr Vilhjálmsson birti í prentútgáfu Heimildarinnar 24. febrúar undir fyrirsögninni: Hluthafarnir taka 56 milljarða úr Símanum eftir ríkisstyrki upp á 1,5 milljarða.

Magnús benti á að fyrirsögnin væri röng. Síminn hefði ekki fengið neina ríkisstyrki. Þeir hefðu runnið til framleiðslufyrirtækja í viðskiptum við Símann. Efnisveitan Síminn nyti ekki neinna slíkra styrkja. Þá næði talan sem Ingi Freyr nefndi yfir styrki til framleiðslufyrirtækja í fimm ár. Hærri tala fyrirsagnarinnar vísaði á hinn bóginn til söluverðs Símans á Mílu. „Blaðamaður stillir þessu viljandi upp á villandi máta í þeim eina tilgangi virðist vera að sverta orðspor Símans,“ segir Magnús réttilega.

Undir lok athugasemdar sinnar segir Magnús að Síminn sé eina stóra fjölmiðlafyrirtækið sem njóti engra ríkisstyrkja til einkarekinna fjölmiðla. Annað eigi við um fyrirrennara Heimildarinnar, Kjarnann og Stundina.

Blaðamennska sem gengur út á að sverta stórfyrirtæki er eitt af því sem sameinar markmið ritstjóra Kjarnans og Stundarinnar og hefur ef til vill orðið kveikjan að því að miðlarnir runnu saman undir flatneskjulega heitinu Heimildin kom.

Það sem Magnús Ragnarsson lýsir í athugasemd sinni á ekkert skylt heiðarlega blaðamennsku heldur snýst um eitthvað allt annað.

Í Morgunblaðinu í dag (3. mars) segir frá því að norska blaðið Aftenposten hafi beðist afsökunar á að hafa birt róggrein um Ísland og svonefnt Samherjamál eftir sjálfstætt starfandi danskan blaðamann sem starfar í Ungverjalandi, Lasse Skytt.

IMG_6559

Ekki er nóg með að Lasse Skytt birti þennan ámælisverða texta í Noregi hann fær einnig grein í svipuðum dúr birta í Journalisten, málgagni danska blaðamannafélagsins. Þar er fyrirsögnin: Island er gået fra eldorado til elendighed for journalister – Ísland er ekki lengur sælureitur fyrir blaðamenn heldur ömurlegt.

Greinin er reist á samtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Heimildarinnar (áður Kjarnans). Allt hafi farið á verri veg frá því á fyrstu árunum eftir hrun þegar Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, fór lofsamlegum orðum um landið þar til í fyrra þegar „Han [Þórður Snær] og tre andre journalistkolleger fik pludselig uventet besøg i Reykjavík af en gruppe politimænd. De var kørt til hovedstaden fra Akureyri i nord – fiskerbyen, hvor Samherji har sit hovedsæde.“

Atburðarásin var aldrei á þennan veg og málið sem hér um ræðir snertir ekki Samherja heldur meðferð blaðamanna á gögnum sem sögð eru afrituð úr stolnum farsíma starfsmanns Samherja. Þess er að engu getið í Journalisten.

Ítrekaðar tilraunir ritstjóra Heimildarinnar til að verða að píslarvotti hér eða erlendis vegna þessa máls eru dæmdar til að mistakast. Að vega að orðspori lands og þjóðar á þennan hátt er ömurleg iðja.