5.6.2019 10:20

Ómaklegar árásir á ráðherra

Um og upp úr aldamótunum hafði ég efasemdir um innleiðingu raforkutilskipana ESB. Þá var rétti tíminn til að ræða grundvallaratriði orkumálanna og EES-aðildina.

Dag eftir dag birtast greinar eftir gamla sjálfstæðismenn í Morgunblaðinu sem leggja aðrar áherslur í neikvæðum skrifum sínum um Sjálfstæðisflokkinn en áður einkenndi umsagnir um flokkinn og störf forystumanna hans.

Í blaðinu í dag (5. júní) birtist til dæmis grein eftir Árna Árnason vélstjóra sem ræðst harkalega á Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, varaformann Sjálfstæðisflokksins, fyrir að hún lýsti skoðunum sínum á umræðunum um þriðja orkupakkann í blaðinu um helgina. Grein Árna virðist fela í sér kröfu um að forystumenn flokksins segi ekki skoðun sína.

Í umræðum um orkupakkamálið á Facebook hefur athygli mín verið vakin á því að Sigmundi Davíð og félögum hans í þingflokknum sé í raun sama um orkupakkann. Fyrir þeim vaki að nota málið til að tala sig frá atvikinu á Klausturbar 20. nóvember 2018. Þeir vilji trompa það atvik með nýju málþófsmeti á þingi.

Dollarphotoclub_80185193Margt bendir til að án þess að hafa kynnt sér orkupakkamálið beiti menn því til að koma höggi á forystumenn og þingflokk sjálfstæðismanna og ala á tortryggni í garð þessa forystufólks auk þess sem glittir í hneykslun ef ekki reiði yfir að ungar konur skipi embætti varaformanns og ritara Sjálfstæðisflokksins.

Ég hef einfaldan mælikvarða til að átta mig á trúverðugleika þeirra sem taka til máls í þessari orrahríð. Það er til dæmis með öllu ástæðulaust að taka mark á þeim sem segja afstöðu mína ráðast af áhuga á að Ísland gangi í ESB. ESB er fyrir þær þjóðir sem þar vilja vera, Íslendingar eiga hins vegar ekkert erindi þangað. Væri þriðji orkupakkinn skref á þeirri leið berðist ég gegn honum.

Um og upp úr aldamótunum hafði ég efasemdir um innleiðingu raforkutilskipana ESB hér á landi og ritaði um það eins og sjá má hér á síðunni. Þá var rétti tíminn til að ræða grundvallaratriði orkumálanna og EES-aðildina. Það var gert og ríkisstjórn og alþingi mótuðu stefnuna með raforkulögum frá árinu 2003. Innleiðingin var upphaflega með skýrum fyrirvörum en í tímans rás tóku íslensk stjórnvöld (ekki ESB) ákvarðanir um að gera þá að engu. Nú hafa fyrirvarar Íslands verið áréttaðir að nýju af Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra og Þórdísi Kolbrúnu iðnaðarráðherra. Nýjar yfirlýsingar sýna að fyrirvararnir njóta viðurkenningar ESB og í sameiginlegu EES-nefndinni. Hér leggjast andstæðingar ráðherranna innan og utan Sjálfstæðisflokksins á eitt til að gera sem minnst úr þeim. Í þessum sérkennilega söfnuði eru einnig þeir sem stóðu að lagasetningunni árið 2003, sumir í fararbroddi.

Lögin voru reist á nýjum viðhorfum í raforkumálum, þ.e. að skilja á milli einkasöluþátta rafkerfisins (flutnings og dreifingar) og þeirra þátta þar sem samkeppni yrði við komið (vinnslu og sölu). Þá var lögunum ætlað að koma til móts við tilskipun Evrópusambandsins um innri markað raforku, 96/92/EB, sem varð hluti af EES-samningnum með ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar frá 26. nóvember 1999.

Á þessum árum sat ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forsæti Davíðs Oddssonar. Þeir sem nú sitja með þriðja orkupakkann í fanginu gera það á grundvelli laganna frá 2003 og ákvarðana sem teknar voru á alþingi 2014 til 2016, þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var forsætisráðherra. Þær leiddu til ákvörðunar 2017 um að pakkinn yrði hluti EES-samningsins eins og ESB-tilskipunin frá 1999.