1.7.2022 10:19

Öllu snúið á hvolf

Skýrasta svarið við spurningunum rithöfundarins liggur nú fyrir í nýrri grunnstefnu NATO þar sem megináherslan er að nýju á fælingarmátt og öflugar varnir.

Halldór Armand Ásgeirsson rithöfundur sagði í pistli á ruv.is miðvikudaginn 29. júní um tilefni innrásar Pútíns í Úkraínu og fjögurra mánaða blóðbaðs þar fyrir hans tilverknað:

„Það sem er siðlaust og illt getur samt sem áður átt sér eitthvert tilefni, einhverja sögu, einhverja ögrun, sem í þessu tilviki er auðvitað linnulaus útþensla NATO þvert á öll fyrri loforð inn í bakgarð Rússa, sem full ástæða er til þess að ræða.“

Fullyrðingin um loforð af hálfu NATO til Rússa um að ríkjum fyrir austan Þýskaland yrði bannað að ganga í NATO er lygi.

Baldur Þórhallsson prófessor andmælti fullyrðingu rithöfundarins á mbl.is fimmtudaginn 30. júní þar sem sagði:

„Baldur telur að hér sé um að ræða rússneskan áróður og lygi sem menn á Vesturlöndum falli fyrir. Með slíkri orðræðu sé öllu snúið á hvolf.

„Þegar Tékkland, Ungverjaland og Pólland vildu ganga inn í NATO fengu þau neitun frá bandalagsríkjunum þar til Pútín gaf grænt ljós á inngöngu þeirra. Sama gilti um inngöngu Eystrasaltsríkjanna, Pútín hafði ekkert út á það að setja, Rússland var því ekki meira aðþrengt en það.““

Nú þegar Finnar og Svíar ganga inn í NATO af ótta við að annars verði þeir ofurseldir hótunum og ógnunum af hálfu Rússa lætur Pútin eins og það skipti Rússa engu nema herafli og tækjabúnaður undir merkjum NATO fylgi. Það var ekki fyrr en eftir 2014 þegar Pútin hafði innlimað Krímskaga og hafið hernað gegn Úkraínumönnum í austurhluta lands þeirra sem NATO-þjóðir vildu að sýnt yrði í verki að þær nytu beins stuðnings til eigin varna, þá var tekið til við að halda úti herafla annarra þjóða í Eystrasaltsríkjunum.

Þegar litið er til Úkraínu sérstaklega var það vilji stjórnmálamanna og almennings þar til að tengjast ESB á sérstakan hátt sem síðla árs 2013 leiddi til árekstursins við Pútin og leppa hans snemma árs 2014. Lepparnir hrökkluðust frá völdum og hafa ekki notið neins stuðnings í Úkraínu síðan þótt gengið hafi verið til kosninga. Nú hefur innrás Pútins veitt Úkraínu og Moldóvu sérstaka stöðu sem ESB-umsóknarríki. Svo spyr Halldór Armand:

„Var virkilega nauðsynlegt að vera stanslaust að ögra þessu fólki [Úkraínumönnum], vígvæða hvert ríkið á fætur öðru í kringum það, aftur, þvert á öll loforð? Getur verið að þessi ofuráhersla á vígvæðingu sé ekki það sem kemur í veg fyrir stríð heldur það sem veldur því?“

Úkraínumönnum var ekki ögrað á nokkurn hátt úr vestri. Það var úr austri, frá Rússlandi, sem ögrað var. Pútin telur að Úkraína eigi engan tilverurétt sem sjálfstætt ríki. Algjörlega er horft fram hjá þeirri staðreynd í spurningum rithöfundarins enda eiga þær ekki við nein rök að styðjast. Hvað skyldu Pútin og Lavrov hafa gefið mörg loforð um að ekki yrði ráðist inn í Úkraínu?

220630b-034_rdax_775x517sSendinefnd Íslands á ríkisoddvitafundi NATO í Madrid 28. til 30. júní 2022: Hermann Ingólfsson fastafulltrúi hjá NATO, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Katrín Jakobsdótti forsætisráðherra (mynd; NATO),

Skýrasta svarið við spurningunum rithöfundarins liggur nú fyrir í nýrri grunnstefnu NATO þar sem megináherslan er að nýju á fælingarmátt og öflugar varnir. Bandalagið leit í grunnstefnu sinni frá 2010 á Rússa sem „strategískan samstarfsaðila“ (e. strategic partner) en nú sem „marktækustu og beinustu ógnina við öryggi bandalagsþjóðanna“ (e. the most significant and direct threat to Allies‘ security“. Þessu fær enginn skáldskapur breytt.