4.12.2023 9:52

Olíuforseti COP28 veldur uppnámi

Bað hann Robinson vinsamlega að sýna sér hvaða leið væri fær til að losna við jarðefnaeldsneyti og viðhalda sjálfbærri félagslegri og efnahagslegri þróun „nema þú viljir fara með heiminn aftur inn í hella“.

Vinnsla jarðefnaeldsneytis og áhrif þess á loftslagsgæði er mikið hitamál á COP28-loftslagsráðstefnunni í Dúbaí sem hófst í liðinni viku og lýkur 12. desember. Nú um helgina sagði breska blaðið The Guardian frá því að Sultan Ahmed Al Jaber, forseti COP28, teldi „engin vísindi“ að baki fullyrðingum um að skipta yrði út jarðefnaeldsneyti til að takmarka hækkun hitastigs jarðar við 1,5 Celsius-gráðu. Þetta markmið var sett með Parísarsamningnum árið 2015. Vísindamenn telja að fari hækkunin yfir þetta mark ógni það manninum og umhverfi hans.

Ummæli þessi lét Al Jaber falla 21. nóvember í pallborðsumræðum undir merkjum samtakanna She Changes Climate þegar Mary Robinson, fyrrv. forseti Írlands, spurði hvort hann mundi hafa forgöngu um að ýta jarðefnaeldsneyti til hliðar. Var The Guardian fyrst til að vekja athygli á orðaskiptum þeirra sunnudaginn 3. desember en þau má sjá á myndbandi.

Al Jaber svaraði Robinson og sagði „engin vísindi eða enga sviðsmynd segja að 1,5 markið næðist með því að draga úr jarðefnaeldsneyti“. Hann sagðist hafa vænst þess að á She Changes Climate fundi færi fram „skynsamlegt og þroskað samtal“ hann tæki ekki þátt í „neinum hrakspárumræðum“.

Hann sagði að 1,5-gráðu-markmiðið væri leiðarljós sitt og „óhjákvæmilega“ yrði jafnefnaeldsneyti ýtt til hliðar en við yrðum að taka á málinu af alvöru og raunsæi. Þegar Robinson gekk enn á hann vegna þessa bað hann hana vinsamlega að sýna sér hvaða leið væri fær til að losna við jarðefnaeldsneyti og viðhalda sjálfbærri félagslegri og efnahagslegri þróun „nema þú viljir fara með heiminn aftur inn í hella“.

United Arab Emirates Minister of Industry and Advanced Technology and COP28 President Sultan Ahmed Al Jaber speaks during the United Nations Climate Change Conference (COP28) in Dubai, United Arab Emirates, November 30, 2023. REUTERS/Amr Alfiky

Sultan Ahmed Al Jaber.

Frá fyrsta degi hefur verið deilt um að Al Jaber stjórnaði COP28. Hann er kaupsýslumaður í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og stjórnarformaður í fyrirtæki þeirra sem skapar endurnýjanlega orku en hann er einnig í forsvari fyrir ríkisolíufyrirtækið í Abú Dhabi, Abu Dhabi National Oil Company (ADNOC).

Talsmaður COP28 sagði við CNN að þessi frétt um forseta ráðstefnunnar væri aðeins enn ein tilraunin til að grafa undan honum og stefnu hans.

Ný ríkisstjórn Nýja Sjálands fékk sunnudaginn 3. desember verðlaun sem samtökin Climate Action Network veita dag hvern á ráðstefnunni og kennd eru við „steingerving dagsins“ (e. fossil of the day en fossil fuel er jarðefnaeldsneyti). Þau eru veitt þeim sem samtökin telja að sýni minnstan skilning á aðgerðum gegn hlýnun jarðar.

Í Nýja-Sjálandi boðar ný hægrisinnuð ríkisstjórn að fella úr gildi bann við olíu- og gasleit á hafi úti sem vinstristjórn undir forsæti Jacindu Ardern setti árið 2018.

Hér í norðri halda Norðmenn og Rússar áfram að leita að olíu og gasi á hafi úti með meiri vinnslu í huga. Hér á landi halda stjórnvöld hins vegar að sér höndum í þessu efni hvað sem líður vísbendingum um olíu- og gaslindir á Drekasvæðinu norðaustur af landinu.

Þrátt fyrir uppámið vegna afstöðu forseta COP28 halda umræður á ráðstefnunni áfram og í vikunni er ætlunin að ræða leiðir til að binda kolefn