10.4.2025 10:32

Ólík viðhorf til fjölmiðlahneyksla

Viðhorfið til tölvuinnbrots í þágu TV2 í Danmörku annars vegar og til innbrotsins í síma Páls til fréttaöflunar hins vegar sýnir ótrúlegt umburðarlyndi hér á landi í garð tölvuþrjóta í fréttaöflun.

Mikið fjölmiðlahneyksli er sagt í uppsiglingu í Danmörku vegna upplýsinga um hvernig sjónvarpsstöðin TV2 stóð að gerð þáttaraðarinnar Den sorte svane Svarti svanurinn – sem sýnd var hér á landi.

Berlingske segir að sjónvarpsstöðin kunni að verða aðalgerandinn í einu mesta fjölmiðlahneyksli í danskri sögu – það kunni að reynast jafnvel stærra en SE og HØR-málið frá 2014. Vikublaðið greiddi heimildarmanni í greiðslufyrirtækinu Nets fyrir upplýsingar um kortanotkun þjóðkunnra Dana og konunglegra.

Í Berlingske segir frá því 10. apríl að fimm af fremstu sérfræðingum Dana í refsirétti telji að bæði uppljóstrarinn Amira Smajic og TV2 kunni að hafa brotið gegn hegningarlögunum. Af hálfu TV2 er öllum ásökunum hafnað.

Miðvikudaginn 9. apríl var upplýst í Berlingske að í febrúar 2022 hafi TV2 látið Amiru Smajic hafa tölvu og hvatt til að brjótast inn í tölvukerfi fyrrverandi vinnuveitanda síns, endurskoðandans Johnnys Hast Hansen og fyrirtækis hans, 4audits, til að skoða viðskiptamannaskrá hans og trúnaðarupplýsingar um ýmska þekkta Dani, íþróttamenn og fólk í viðskiptalífinu.

Berlingske segist ekki enn hafa komist til botns í því hvort innbrotið heppnaðist. Refsiréttarfræðingarnir fimm segi blaðinu að það skipti ekki höfuðmáli.

Það sem skipti aftur á móti höfuðmáli sé að TV2 hvatti heimildarmann sinn, Amiru Smajic, á ólögmætan hátt með tölvuinnbroti (d. hacking).

Það sé skýr grundvöllur fyrir lögregluna til að hefja sakamálarannsókn gegn viðkomandi fréttamönnum og einnig á því hvort yfirmenn þeirra, til dæmis fréttastjórar eða aðrir stjórnendur TV2, hafi samþykkt þessar starfsaðferðir.

Stjórnendur sjónvarpsstöðvarinnar geti reynst meðsekir þar sem ákvæði refsilaganna um tilraun til brots og hlutdeild í henni séu sérstaklega víðtæk. Jafnvel kunni að verða unnt að refsa TV2 sem sé hlutafélag.

24927638-fra-et-kontor-med-skjulte-kameraer-rdgiver-amiraAmira Smajic, uppljóstrarinn í heimildarmyndinni  Svörtum svönum.

Í Morgunblaðinu í dag (10. apríl) er skýrt frá því að Páll Steingrímsson skipstjóri ætli að stefna ríkisútvarpinu (RÚV) vegna vinnubragða í tengslum við umfjöllun sem RÚV birti úr gögnum sem afrituð voru úr stolnum síma eftir að þáverandi eiginkona hans byrlaði honum ólyfjan.

Páli var byrlað heima hjá sér á Akureyri kvöldið 3. maí 2021. Um nóttina var honum ekki hugað líf, var settur á dauðavagninn svokallaða, en fékk endurnýjun lífdaga með raflosti. Þáverandi eiginkona skipstjórans játar byrlunina. Hún glímir við alvarleg andleg veikindi. Eiginkonan hefur einnig játað að hafa 4. maí afhent Þóru Arnórsdóttur, ritstjóra Kveiks á RÚV, síma skipstjórans, af Samsung-gerð. Brotist var inn í símann og fjölmiðlamenn notuðu upplýsingar sem þar náðust. Árangurslaus rannsókn lögreglu stóð misserum saman.

Viðhorfið til tölvuinnbrots í þágu TV2 í Danmörku annars vegar og til innbrotsins í síma Páls til fréttaöflunar hins vegar sýnir ótrúlegt umburðarlyndi hér á landi í garð tölvuþrjóta í fréttaöflun.

Fjölmiðlamenn sem tengdust rannsókn lögreglu hér á byrlunar- og símastuldarmálinu vildu afla sér samúðar í Danmörku fyrir tilstuðlan dansks lausamanns í blaðamennsku. Vinnubrögð hans þóttu hneykslanlega léleg. Hann naut velvildar Blaðamannafélags Íslands sem dregur taum RÚV í málinu.