Ólafur Elíasson í Portó
Nú sýnir Ólafur Elíasson í húsinu og garðinum (frá júní 2019 til júní 2020). Sýninguna kallar hann á ensku: Y/OUR FUTURE IS NOW.
Serralves er menningarstofnun í Portó í Portúgal. Á Wikipedia segir að stofnunin sé meðal þeirra merkustu í heimi, þar er að finna listasafn sem er í hópi 100 mest sóttu safna í heimi. Safnhúsið er teiknað af Álvaro Siza Vieira og þangað koma nærri ein milljón gesta á ári.
Nú sýnir Ólafur Elíasson í húsinu og garðinum (frá júní 2019 til júní 2020). Sýninguna kallar hann á ensku: Y/OUR FUTURE IS NOW. Var eftirminnilegt að ganga um sýninguna innan dyra og í garðinum í góðviðri laugardaginn 16. nóvember.
Myndirnar tala sínu máli.
Þegar komið er inn í safnhúsið blasir verkið Gulur
skógur (2017) við gestum sem unnið var í samvinnu við landslagsarkitektinn
Günther Vogt. Þarna eru birkitré böðuð gulu ljósi.
Inni í sal safnhússins er verkið The listening dimension (2017), - hlustunarvíddin - þrír stórir svífandi hringir í speglasal sem settur hefur verið upp undir stórum glugga út í garðinn þar sem önnur verk sýningarinnar er að finna. Það skapar sérkennilega tilfinningu að ganga á milli hringjanna og sjá þá svífa í speglunum.
Utandyra er verkið The curious vortex (2019) – forvitnilegi svelgurinn. Það er úr ryðfríu stáli og í miðjunni er svelgurinn sem Ólafur tengir við starf safnastofnana í nútíma samfélagi. Söfn geti virkjað hugsanir, hugmyndir, tilfinningar og hlýhug. Verkið á að minna áhorfandann á fjölþætt hlutverk safna, allt sé á sífelldri hreyfingu og háð stöðugum breytingum.
Verkið Human time is movement (winter, spring and summer)(2019) – mannlegur tími er hreyfing (vetur, vor og sumar), er í garðinum. Þrjú hreyfanleg, svört og hvít, verk úr ryðfríu stáli sem mótuð eru á stærðfræðilegum grunni. Einskonar þvívíddar-myndir.
Í kringum safnhúsið liggja rekaviðadrumbar frá íslenskri strönd undir heitinu Arctic tree horizon (2019) – sjóndeildarhringur heimskautaviðar. Makað hefur verið svartri tjöru á hluta drumbanna.