12.5.2023 10:04

Óhæf stjórnarandstaða

Formaður eftirlits- og stjórnskipunarnefndar ætti að segja af sér til að vera sjálfum sér samkvæmur. Þá hlýtur þingmaðurinn Sigmar Guðmundsson að íhuga stöðu sína af alvöru.

Þingmenn Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata fóru hamförum í þingsalnum 28. mars 2023 og sökuðu Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra um lögbrot vegna vegna beiðna þingmanna flokkanna um afhendingu upplýsinga um umsækjendur um ríkisborgararétt.

Samfylkingarkonan Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður eftirlits- og stjórnskipunarnefndar, fór þar fremst í flokki og sagði dómsmálaráðherra brjóta 51. gr. þingskapalaga.

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði alveg skýrt að dómsmálaráðherra hefði brotið lög þegar hann „kom ítrekað í veg fyrir“ að þingmenn fengju gögn vegna lagasetningar um ríkisborgararétt. Dómsmálaráðherra hlyti að íhuga stöðu sína alvarlega.

1378990Á fundi í  eftirlits- og stjórnskipunarnefnd alþingis, Sigmar Guðmundsson Viðreisn og Þórunn Sveinbjarnardóttir Samfylkingu. Íhuga þau stöðu sina? Höfðu bæði rangt fyrir sér í vantraustsmálinu (mynd: mbl.is).

Píratar hafa gengið þingmanna fremstir í ásökunum á hendur Jóni Gunnarssyni í þessu máli og þar gegndi Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir þingmaður þeirra forystu. Áður en hún var kjörin á þing starfaði hún sem lögmaður, þar á meðal fyrir hælisleitendur. Eftir að á þing kom tók hún þátt í að veita þessum umbjóðendum sínum ríkisborgararétt.

29. mars 2023 fluttu þingmennirnir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Pírötum, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Samfylkingu, Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins og Hanna Katrín Friðriksson, Viðreisn, tillögu til vantrausts á Jón Gunnarsson.

Í upphafi framsöguræðu sinnar 30. mars sagði fyrsti flutningsmaður tillögunnar, Þórhildur Sunna, að dómsmálaráðherra hefði brotið gegn einni af grunnstoðum þingræðisins á Íslandi. Hann hefði brotið gegn upplýsingarétti Alþingis Íslendinga. Þetta væri „grafalvarlegt brot gegn þinginu, brot sem þingið [mætti] ekki láta yfir sig ganga eins og ekkert [hefði] gerst“.

Vantrauststillagan var felld með 35 atkv. gegn 22 30. mars 2023.

Stjórnarandstæðingar sökuðu dómsmálaráðherra um að hafa brotið 51. gr. þingskapalaganna eins og áður segir. Á forsíðu Morgunblaðsins í dag (12. maí) er vitnað í álitsgerð Lagastofnunar HÍ þar sem 51. greinin er skýrð á þann veg að þegar rætt sé um gögn í greininni „sé ljóslega átt við fyrirliggjandi gögn, sem hið opinbera búi þegar yfir.“ Í greininni „felist ekki fyrirmæli um að aflað sé nýrra gagna fyrir þingið, enda sé ákvæðið ætlað til þess að efla eftirlitshlutverk þess gagnvart framkvæmdarvaldinu“.

Afgreiðsla alþingis á umsóknum um ríkisborgararétt sé hluti af löggjafarstarfi þingsins, þar sem ekki reyni á eftirlitshlutverkið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Stjórnvöldum sé ekki skylt samkv. 51. gr. að afla upplýsinga og leggja mat á þær í formi umsagna fyrir þingið og enn síður sé unnt að beita upplýsingaréttinum „til að knýja á um að stjórnvöld sinni lögbundinni skyldu sinni til að veita umsögn samkvæmt öðrum lögum“.

Útreiðin sem stóryrtir stjórnarandstöðuþingmenn fá þarna fyrir túlkun sína á lögum og fyrir vantrauststillögu þeirra er afdráttarlaus. Formaður eftirlits- og stjórnskipunarnefndar ætti að segja af sér til að vera sjálfum sér samkvæmur. Þá hlýtur þingmaðurinn Sigmar Guðmundsson að íhuga stöðu sína af alvöru.