3.9.2025 13:51

Ógöngur ESB-sinna í öryggismálum

Í umræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu hefur athygli nú í fyrsta sinn verið beint sérstaklega að öryggismálum. 

Í umræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu hefur athygli nú í fyrsta sinn verið beint sérstaklega að öryggismálum. Aðildarsinnar halda því fram að Ísland þurfi að fá „aukna öryggistryggingu“ með ESB-aðild. Þegar málið er hins vegar skoðað í ljósi þess samstarfs sem þegar er fyrir hendi blasir við að þessi rök standast ekki.

Í fyrsta lagi er rétt að minna á að Ísland er aðili að NATO og hefur haft varnarsamning við Bandaríkin síðan 1951. Þetta eru raunverulegir hornsteinar íslensks öryggis. Það er 5. gr. Atlantshafssáttmálans sem tryggir að árás á Ísland yrði talin árás á öll aðildarríkin. ESB hefur engan her og getur ekki boðið sambærilega varnarskuldbindingu.

Í öðru lagi nýtur Ísland þegar borgaralegs öryggis- og lögreglusamstarfs við ESB með aðild sinni að Schengen. Við höfum aðgang að öllum helstu gagnagrunnum, tökum þátt í Europol, Eurojust og Prüm-samstarfinu, og íslensk lögregla vinnur náið með sérsveitum og sprengjueyðingarsveitum í Evrópu. Aðild að ESB myndi ekki bæta við neinu sem við höfum ekki nú þegar.

Í þriðja lagi hafa utanríkisráðherrar Íslands tekið þátt í óformlegum stefnumótunarfundum ESB-ríkja um utanríkis-, öryggis- og varnarmál. Þar með situr Ísland við borðið þegar rætt er um mikilvægustu öryggismálin, án þess að afsala neinum fullveldisrétti með framsali valds. Við tökum því þátt í umræðunum þegar það skiptir máli.

Þá situr fulltrúi Íslands á ráðherrafundum Schengen-ríkjanna og á aðild að ákvörðunum um málefni þess samstarfs á hæsta stjórnstigi eftir að sérfræðifundir hafa verið sóttir af íslenskum fulltrúum við mótun reglna. 

Þegar þetta er allt lagt saman stendur eftir spurningin: hvað vilja aðildarsinnar meira í öryggis- og varnarmálum?
- í borgaralegu öryggismálunum – þar erum við þegar fullir þátttakendur.
- í hernaðarvörnunum – það er hlutverk NATO.
- í pólitískum samræðum – við höfum aðgang að þeim þegar það skiptir okkur máli.

54754028353_f453271c44_kÍslenskum utanríkisráðherrum er boðið að sitja óformlega stefnumótunarfundi utanríkisráðherra ESB-ríkjanna, Danir buðu til slíks fundar laugardaginn 30. ágúst og sat Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fundinn (mynd:UTN).

Magnús Árni Skjöld Magnússon, formaður Evrópuhreyfingarinnar, sagði í grein á Vísi mánudaginn 1. september að „rök“ hafi „verið færð að því að sú öryggistrygging sem felst í aðild að Evrópusambandinu sé virkjuð fyrr en aðildin að NATO í þeim (vonandi ólíklegu) tilfellum sem öryggi okkar væri ógnað“.

Þetta er einfaldlega algjörlega rakalaust.

ESB hefur í 42.7 gr. Lissabon-sáttmálans ákvæði um gagnkvæma aðstoð ef aðildarríki verður fyrir vopnaðri árás. Ákvæðið er reist á því að NATO sé áfram „hornsteinn“ varna ríkja í báðum bandalögum. Í reynd hefur 42.7 gr. verið virkjuð einu sinni (af Frökkum 2015 eftir hryðjuverk í París 13. nóvember) og útfærslan var pólitísk fremur en hernaðarleg.

Þá telur formaður Evrópuhreyfingarinnar að auki „réttmætt að setja spurningamerki við það hvort ríki, sem hefur hótað að innlima, jafnvel með vopnavaldi, bandalagsríki sín í NATO (Kanada og Grænland), myndi hafa okkar hagsmuni sem fullvalda þjóðar að leiðarljósi ef til vopnaðra átaka kæmi“.

Þessi tilvísun til þess að Bandaríkjamenn kunni hugsanlega að innlima Kanada eða Grænland með vopnavaldi og þess vegna eigi Ísland að ganga í ESB gerir málflutning formannsins endanlega marklausan.