31.1.2024 11:53

Ógagnsæ spillingarvakt

Því miður skortir gagnsæi í tilkynninguna, óvíst er um hvaða þátt Samherjamálsins ræðir, hvort símastuldarmálið og augljós hnignun fjölmiðlunar hér í ljósi þess hafi komið til athugunar.

Fréttir hafa birst um að sex manna teymi á vegum héraðssaksóknara hafi farið til Namibíu í tengslum við það sem hér er kallað Samherjamálið en Namibíumenn nefna Fishrot-hneykslið.

Upphafið má rekja til Kveiks-þáttar í ríkissjónvarpinu í nóvember 2019. Þar var vísað til uppljóstrana Jóhannesar Stefánssonar, fyrrv. starfsmanns Samherja í Namibíu, og WikiLeaks-skjala sem Kristinn Hrafnsson miðlaði. Hann fer með málefni WikiLeaks og er upplýsingafulltrúi Julians Assange, stofnanda WikiLeaks, sem nú situr í bresku fangelsi.

Frá því að upplýsingarnar birtust um meðferð namibískra stjórnmálamanna og embættismanna á fé sem Samherji greiddi fyrir veiðiheimildir í lögsögu Namibíu hafa níu fyrrverandi forvígismenn í opinberri stjórnsýslu Namibíu á sviði sjávarútvegsmála setið í fangelsi. Ítrekuðum tilmælum þeirra um frelsi gegn tryggingu á meðan beðið er dóms í málinu hefur verið hafnað. Málflutningur hófst undir lok árs í fyrra en var að ósk ákærðra frestað fram til 4. mars í ár. Enginn starfsmaður Samherja sætir ákæru.

Ef marka má fréttir virðast sakborningar í Namibíu hafa tryggt sér persónulegan ráðstöfunarrétt á að minnsta kosti hluta auðlindagjalds sem Samherji greiddi.

Í áranna rás hefur fjarað undan fréttum af þessum málum í fjölmiðlum hér. Þeir sem kveiktu þetta mál hafa yfirgefið fréttastofu ríkisútvarpsins og starfa nokkrir þeirra á vinstri vefsíðunni Heimildinni. Sumir í hópnum hafa stöðu sakborninga í máli sem er til rannsóknar vegna þess að síma var stolið af Samherjastarfsmanni á meðan hann var án meðvitundar vegna byrlunar. Efni sem afritað var úr símanum birtist til að halda lífi í Samherjamálinu hér á landi.

Héraðssaksóknari hefur ekki lokið rannsókn málsins, að sögn vegna skorts á gögnum frá Namibíu. Um tíma var málið í höndum saksóknara sem er nú settur héraðsdómari. Hann er bróðir eins blaðamannanna sem reyna að halda lífi í Samherjamálinu hér.

Páll Vilhjálmsson framhaldsskólakennari heldur úti bloggi, Tilfallandi athugasemdum. Hann hefur manna best haldið utan um það sem gerst hefur á hinum væng Samherjamálsins, ef það má orða svo. Páll hefur meðal annars sagt frá gangi rannsókna sem tengjast símastuldarmálinu. Hafa fjölmiðlamenn gert ítrekaðar tilraunir til að fæla hann frá skrifum um málið.

Screenshot-2024-01-31-at-10.03.03

Ástæða er til að ræða innlendan þátt Samherjamálsins því að í tilkynningu á vefsíðu Transparency International Iceland sem birtist þriðjudaginn 30. janúar segir að Ísland hafi aldrei mælst verr í vísitölu spillingarásýndar Transparency International. Athygli skal vakin á orðinu „ásýnd“, vísitalan er byggð á því sem þeim sýnist eða finnst sem taka hana saman.

Af tilkynningunni má ráða að Samherjamálið vegi mjög þungt hjá þeim sem drógu upp dapra ásýnd Íslands árið 2023. Því miður skortir gagnsæi í tilkynninguna, óvíst er um hvaða þátt málsins ræðir, hvort símastuldarmálið og augljós hnignun fjölmiðlunar hér í ljósi þess hafi komið til athugunar eða aðeins sú brenglaða mynd sem birtist af Fishrot-hneykslinu í Namibíu hér á landi.