Ofurviðbrögð við ómíkron
Í Bretlandi standa menn á öndinni yfir árás á mannréttindi með skilríkjakröfu hér gengur allt snurðulaust fyrir sig.
Þegar litið er til umræðna hér um áhrif ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar er óvenjulega rólegt yfir vötnunum miðað við skrefin sem stigin eru í Noregi og Danmörku til að hefta útbreiðslu hennar. Hún er mun hraðari en fyrri afbrigða en áhrifin mildari. Þetta segja sumir að bendi til þess að veiran sé í kappi við eigin útrýmingu, því hraðar sem hún dreifi sér þeim mun veikari verði hún og hættuminni. Af þessum sökum sé ástæðulaust að mála skrattann á vegginn með ofsafengnum viðbrögðum, þau séu ekki annað en hræðsluáróður.
Mesta pólitíska spennan vegna þessa er í Bretlandi en talið er í dag (14. desember) standi Boris Johnson, forsætisráðherra Breta og leiðtogi Íhaldsflokksins, frammi fyrir COVID-uppreisn í eigin þingflokki sem túlka megi sem upphaf endaloka hans sem flokksleiðtoga. Dagar hans sem leiðtoga séu í raun taldir, spurningin sé hvort þeir verði fáir eða margir.
Þegar þetta er skrifað snúast fréttir úr þingflokki íhaldsmanna um að þeir (e. whips) sem bera ábyrgð á að þingmenn skili sér til atkvæðagreiðslu og styðji stjórnina leggi sig alla fram um að fá þingmenn ofan af því að greiða atkvæði gegn kröfu um kórónu- eða COVID-passa.
Við undirráðherra innan þingflokksins er sagt að það jafngildi afsögn að styðja ekki tillögu Johnsons. Á vefsíðunni The Telegraph segir hins vegar að um 80 íhaldsþingmenn, meira en þriðjungur almennra þingmanna, hafi þrátt fyrir ofurþrýsting gefið til kynna að þeir sætti sig ekki við tillögu stjónarinnar. Þar segir meðal annars að frá og með 06.00 að morgni 15. desember verði fólk sanna með passa að hafa fengið tvo skammta af bóluefni eða sýna nýlega neikvæða niðurstöðu í hraðprófi til að komast í næturklúbba eða á fjölmenna viðburði.
Hraðpróf-stöð í Kringlunni (mbl.is).
Hér á landi komast menn ekki á fjölmenna viðburði t.d. í Hörpu án þess að sýna staðfestingu á neikvæðu hraðprófi sem er tekið innan 48 tíma. Hér er hins vegar ekki beðið um bólusetningarvottorðið sem flestir hafa í síma sínum. Möglunarlaust fara þríbólusettir hér hvað eftir annað í hraðpróf ætli þeir til dæmis á tónleika, í Bretlandi dygði að sýna bólusetningarvottorðið. Þar standa menn á öndinni yfir árás á mannréttindi með skilríkjakröfu hér gengur allt snurðulaust fyrir sig. Hvers vegna þurfa margbólusettir hér að vera bæði með belti og axlabönd til að fara á tónleika? Af því að þeir sætta sig við það?
Nú eru um það bil þrjár vikur frá því að fréttin um ómikron barst frá S-Afríku. Þá var sagt að við yrðum að bíða að minnsta kosti í þann tíma til að vita um hættuna af nýja afbrigðinu. The Telegraph hefur í dag eftir Peter Streicher, sérfræðingi við Háskólann í Jóhannesarborg, að tölfræði sýni að fram til loka nóvember hafi um 3% sýktra dáið í S-Afríku vegna delta-afbrigðis veirunnar, tala látinna ætti því að vera um 200 á dag núna en hún sé 21. Dauðsföllum hafi fækkað eftir að ómikron náði yfirhöndinni. Niðurstaða hans er:
„Ómíkron-veiran er einstaklega mild. Fólk annars staðar í heiminum þarf ekkert að óttast.“
Hræðslubylgja fór um heiminn fyrir þremur vikum vegna fréttanna frá S-Afríku. Hvað nú? Verður slegið á bjartsýni og haldið áfram að mála skrattann á vegginn?