12.3.2021 10:12

Ofurvarkárni við bólusetningar

Evrópska lyfjaeftirlitið brást við ákvörðun Dana strax fimmtudaginn 11. mars og sagði ekkert benda til þess á þessari stundu að tengsl væru á milli blóðtappa og bóluefnisins.

Vegna þess álits sem norrænar þjóðir njóta fyrir heilbrigðisþjónustu sína vakti sérstaka athygli víða um lönd í gær (11. mars) þegar bannað var í 14 daga að nota Oxford-AstraZeneca-bóluefnið í Danmörku, Íslandi og Noregi af ótta við að efnið yki hættu á blóðtappa. Sá fyrirvari var gefinn þegar bannið var kynnt að um varúðarráðstöfun væri að ræða. Ekki lægi fyrir nein staðfest sönnun um að hætta stafaði af bóluefninu.

Heilbrigðisyfirvöld í Danmörku gripu til bannsins eftir að 60 ára gömul kona andaðist eftir bólusetningu vegna blóðtappa. Þá var strax ákveðið í Noregi og hér á landi að efni úr sama framleiðsluskammti yrði ekki notað án frekari athugana meðal annars á vegum evrópska lyfjaeftirlitsins. Yfirvöld fleiri Evrópulanda fóru sömu leið án tillits til úr hvaða framleiðsluskammti efnið kæmi.

Vandræðagangurinn í kringum Oxford-AstraZeneca-bóluefnið er mikill. Þjóðverjar og Frakkar ákváðu nýlega að efninu mætti sprauta í fólk á öllum aldri en ekki aðeins yngri en 65 ára. Þegar ákvörðun um það lá fyrir var ekki nóg til af efninu í Evrópu en miklar ónotaðar birgðir í Bandaríkjunum þar sem lyfjaeftirlitið hefur ekki lokið rannsóknum sínum. Evrópuríki óskuðu eftir að kaupa ónotaðar birgðir frá Bandaríkjunum en til þessa hefur Biden-stjórnin bannað útflutning á efninu til Evrópu. Allt að einn mánuður kann að líða þar til bandaríska lyfjaeftirlitið gefur út álit sitt á Oxford-AstraZeneca-bóluefninu. Nú þegar hefur það fengið leyfi í meira en 70 löndum.

_116829846_tv064940210Það er ekki endilega til þess fallið að ýta undir áhuga fólks á bólusetningu að birta myndir af sprautum og nálum á sjónvarspskermum.

Evrópska lyfjaeftirlitið brást við ákvörðun Dana strax fimmtudaginn 11. mars og sagði ekkert benda til þess á þessari stundu að tengsl væru á milli blóðtappa og bóluefnisins. Lyfjaeftirlitið telur að kostirnir við að nota bóluefnið séu meiri en gallarnir og nota megi efnið áfram á meðan blóðtappa-atvikið sé rannsakað betur. Almennt séð séu blóðtappa-atvik meðal bólusettra ekki fleiri en almennt meðal fólks. Athugun leiddi í ljós að 10. mars 2021 hefð verið tilkynnt um 30 blóðtappa-atvik meðal nærri fimm milljónum manna sem hefðu verið sprautaðir með Oxford-AstraZeneca bóluefni á evrópska efnahagssvæðinu.

Gonzalo Viña, talsmaður fyrirtækisins, sagði að á þess vegum hefðu meira en 10 milljónir skráninga vegna notkunar á bóluefninu verið rannsakaðar án þess að aukin hætta á sjúkdómum tengdum blóðtappa hefði greinst meðal nokkurs aldurshóps eða eftir kyni, framleiðsluskömmtum eða löndum.

Ástæða er til að rekja þessa sögu og fylgjast með henni því að hún endurspeglar hve vandasamt er að vekja þjóðlífið að nýju eftir faraldursdvala í rúmt ár. Ákvarðanir um bönn og fréttir af þeim varpa skugga á bólusetningar. Almennt eru menn ekki með hugann við heiti á bóluefnum. Fréttir um að það sé ef til vill hættulegt að láta sprauta sig falla í frjóan jarðveg hjá mörgum sem leita að öllu sem staðfestir réttmæti þess að þeir fari ekki í bólusetningu. Geri þeir það ekki minna þeir helst á skemmd epli sem valda öðrum skaða.

Hér eru hópar boðaðir til bólusetninga með sms-skilaboðum, þar er getið um stað og stund og auk þess heiti bóluefnisins sem verður notað. Því fleiri bóluefni sem hljóta samþykki og dreifingu því fyrr kemst lífið í eðlilegt horf.