15.5.2021 10:05

Ofur-trumpistinn og píratinn

Frásagnir úr Bandaríkjaþingi minna á fréttir úr ráðhúsi Reykjavíkur um framgöngu Dóru Bjartar Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa pírata, á fundi borgarstjórnar.

Majorie Taylor Greene, fulltrúadeildarþingmaður í Bandaríkjunum, er í róttæka armi repúblikana og ákafur stuðningsmaður Donalds Trumps. Hún heldur gjarnan fram samsæriskenningum á borð við þær sem leiddu til árásarinnar á bandaríska þinghúsið í janúar 2021.

Fréttir berast nú af því að Taylor Greene hafi elt Alexandriu Ocasio-Cortez, fulltrúadeildarþingmann demókrata, á göngum þinghússins í Washington og gert að henni hróp með ósönnum áburði um stuðning hennar við hópa sem eru hryðjuverkamenn að mati Taylor Greene: „Þér er sama um bandarísku þjóðina! Hvers vegna styður þú hryðjuverkamenn og Antifa?“ öskraði repúblikaninn.

Taylor Greene hefur meðal annars reynt að reita Ocasio-Cortez til reiði og skora hana á hólm með því að kalla hana chicken (raggeit) og segja hana „hrædda, forheimska smástelpu sem veit ekki neitt“. Ocasio-Cortez líkir Taylor Greene við bargestina sem hún varð að kasta út á fyrri vinnustað sínum vegna dólgsháttar.

Leiðtogar demókrata á þingi segja að Taylor Greene stundi einelti og íhuga að biðja siðanefnd þingsins um að taka orð hennar og gerðir til formlegrar athugunar.

Frásagnir úr Bandaríkjaþingi minna á fréttir úr ráðhúsi Reykjavíkur um framgöngu Dóru Bjartar Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa pírata, á fundi borgarstjórnar.

Gaetz_greene_rally_45972_c0-135-3269-2040_s885x516Majorie Taylor Greene, fulltrúadeildarþingmaður í Bandaríkjunum, fagnar sjálfri sér á fundi með stuðningsmönnum.

Dóra Björt eltist við Sjálfstæðisflokkinn og einstaka borgarfulltrúa hans af sambærilegri heift og Taylor Greene sýnir Alexandriu Ocasio-Cortez.

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði á Facebook miðvikudaginn 12. maí að árið 2018 hefði Dóra Björt sagt við sig þegar hún hafði farið ókvæðisorðum um Sjálfstæðisflokkinn í útvarpsþættinum Harmageddon þar sem þær báðar voru gestir:

„Ég veit þú ert ekki óheiðarleg. Það er bara stefna okkar Pírata að tala svona um Sjálfstæðisflokkinn.”

Dóra Björt jós svívirðingum yfir sjálfstæðismenn á borgarstjórnarfundi þriðjudaginn 11. maí í umræðum um ársreikning Reykjavíkurborgar og lét forseti, viðreisnarmaðurinn Pawel Bartoszek, það óátalið. Í tilefni af uppákomunni rifjaði Hildur Björnsdóttir upp fyrrgreind orð Dóru Bjartar við sig frá árinu 2018.

Upprifjun Hildar varð til þess að Dóra Björt, formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar, sakaði Hildi um ósannindi:

„Ég hef ekki sagt henni að það sé stefna Pírata að tala illa um Sjálfstæðisflokkinn – það er ekki stefna Pírata. [...] Hafi ég einhvern tímann sagt við Hildi að ég telji hana ekki endilega óheiðarlega þótt hún tilheyri þessum flokki er mér bæði ljúft og skylt að draga slíkt til baka,“ sagði Dóra Björt á Facebook-síðu sinni fimmtudaginn 13. maí.

Þær Taylor Greene og Dóra Björt eru á sömu ömurlegu bylgjulengdinni í stjórnmálum, megi nota það orð um persónuníðið og flokkshatrið.