30.5.2017 9:43

Öfugmæli í forsíðufyrirsögn

Þingfrestun verður Snærós Sindradóttur, blaðamanni Fréttablaðsins, tilefni forsíðufréttar undir fjögurra dálka stórfyrirsögninni í dag: Sigur stjórnarandstöðunnar. Fyrirsögnin minnir á söluslagorð fyrir vöru sem þarf að fegra með öfugmæli.

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar var mynduð 11. janúar eftir langar stjórnarmyndunarviðræður. Hún hefur eins atkvæðis meirihluta á bak við sig og að henni standa þrír stjórnmálaflokkar, þar af tveir sem hafa aldrei áður átt aðild að ríkisstjórn og báðir komu til sögunnar til að vera á móti í stað þess að bera ábyrgð á stjórn landsins.

Á skömmum tíma tókst stjórninni það sem tveimur ríkisstjórnum með ríflegan þingmeirihluta að baki sér hafði mistekist: að afnema fjármagnshöftin. Stjórninni tókst einnig að ná samstöðu um fjármálastefnu og fjármálaáætlun. Allt eru þetta meginmál og með fjármálastefnunni og fjármálaáætluninni er verið að hrinda í framkvæmd lögum sem tóku gildi á árinu 2016.

Ef marka má fréttir verður alþingi frestað miðvikudaginn 31. maí í samræmi við starfsáætlun sína en svonefndar eldhúsdagsumræður fóru fram í gær.

Þar var Katrín Jakobsdóttir, formaður vinstri grænna, stærsta stjórnarandstöðuflokksins, fyrsti ræðumaður og leitaðist við að breyta ímynd sinni með því að slá á létta strengi og gera grín að stjórnarflokkunum ásamt ásökunum um að hjá þeim gæti „frjálshyggjukredduhugsunar“. Sjálf er Katrín söm við sig og sósíalismann þegar hún segir í ræðu sinni:

„Hvað þyrfti að gera? Við þurfum að endurskipuleggja skattkerfið frá grunni. Hin raunverulega misskipting birtist í því hvernig auðæfin dreifast. Á Íslandi eru það ríkustu tíu prósentin sem eiga þrjá fjórðu alls auðs. Kannski vill einhver hafa það þannig. Kannski vill ríkisstjórnin hafa það þannig. Ef við viljum það ekki þarf að endurskoða hvernig við skattleggjum fjármagnstekjur, skattleggja auð yfir ákveðnum mörkum og Ísland þyrfti að vera fremst í flokki í alþjóðlegu samstarfi ríkja um slíka skattlagningu. Að sjálfsögðu þarf að tryggja að arðurinn af auðlindum þessa lands renni af sanngirni til þjóðarinnar.“

Þrátt fyrir að skattpíningarstefnu af þessu tagi hafi verið hafnað í kosningum austan hafs og vestan halda vinstri grænir dauðahaldi í hana.

Katrínu mistókst að mynda ríkisstjórn um þessa stefnu að loknum kosningum. Henni var einfaldlega hafnað auk þess sem Katrín mátti ekki til þess hugsa að setjast með framsóknarmönnum í ríkisstjórn.

Í umræðunum í gær kom fram að ríkisstjórnin hafi lagt fram um 100 mál fyrir þingið frá því að hún var mynduð. Að sjálfsögðu var borin von að svo mörg mál yrðu afgreidd á þeim skamma tíma sem stjórnin og meirihluti hennar hafði til stefnu. Það er rétt mat að fresta þingi á áætluðum degi hvað sem líður afgreiðslu ótímabundinna ágreiningsmála.

Þessi niðurstaða fyrir þingfrestun verður Snærós Sindradóttur, blaðamanni Fréttablaðsins, tilefni forsíðufréttar undir fjögurra dálka stórfyrirsögninni í dag: Sigur stjórnarandstöðunnar. Fyrirsögnin minnir á söluslagorð fyrir vöru sem þarf að fegra með öfugmæli.

Fyrirsögnin vísar til þess að ekki verða settar á langar umræður um ágreiningsmál á þinginu – þau bíða einfaldlega afgreiðslu. Að telja þinghaldið sigur fyrir stjórnarandstöðuna er óskhyggja stuðningsmanna hennar.

Á sama tíma og ríkisstjórnarflokkunum hefur tekist að stilla saman strengi um mál sem þeir vilja afgreiða hafa stjórnarandstöðuflokkarnir einfaldlega splundrast vegna innri ágreinings á þingmánuðunum frá í janúar.