27.7.2022 9:15

Ofstæki Fréttablaðsins

Að minnsta kosti er ljóst að blaðamenn og fastir dálkahöfundar Fréttablaðsins draga ekkert undan vilji þeir ryðja einhverjum úr vegi.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, áréttar í blaði sínu í dag (27. júlí) að með orðinu „samantekt“ í lok greinar geti menn skotið sér undan ábyrgð á að birta í heimildarleysi ritverk annars manns sem sitt eigið. Þessa fjarstæðu skoðun kynnir hann til sögunnar vegna umræðna sem urðu í tilefni af orðum sem einn af blaðamönnum Fréttablaðsins, Ólafur Arnarson, lét falla um ritstuld og heiður starfsmanna blaðsins í grein þar 16. júlí sl.

Í greininni fór Ólafur ómaklegum orðum um Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor sem svarar fyrir sig í blaðinu í dag. Lýkur Hannes Hólmsteinn grein sinni á þessum orðum:

„Ólafur hefur vitað af hinum grófa ritstuldi ritstjórans og þess vegna tekið svo afdráttarlaust til orða. Hann beinir kastljósinu vísvitandi að Sigmundi Erni með tali sínu um, að menn eigi ekki að halda stöðum sínum, gerist þeir sekir um ritstuld. Hann reynir að grafa undan honum í því skyni að taka sjálfur sæti hans. Í keppninni um hylli Helga Magnússonar [eiganda Fréttablaðsins] svífast leigupennarnir einskis.“

Kenning prófessorsins um tilgang skrifa Ólafs kann að vera rétt. Að minnsta kosti er ljóst að blaðamenn og fastir dálkahöfundar Fréttablaðsins draga ekkert undan vilji þeir ryðja einhverjum úr vegi. Upphaf þess að Hannes Hólmsteinn lenti á milli tannanna hjá blaðamönnum Fréttablaðsins að þessu sinni var að hann vakti máls á að ritfærasta blaðamanninum þar, Kolbrúnu Bergþórsdóttur, var vikið úr starfi „vegna skipulagsbreytinga“. Líklegra er þó að hógværar skoðanir hennar á mönnum og málefnum hafi ekki fallið eiganda fríblaðsins í geð.

UtlendingastofnunMeðal leiðarahöfunda blaðsins er Aðalheiður Ámundadóttir sem áður starfaði fyrir þingflokk Pírata. Hún fylgir öfgastefnu þeirra í málefnum útlendinga og segir meðal annars í leiðara Fréttablaðsins í dag:

„Útlendingastofnun er rotin að innan og með ónýtt erfðamengi. Henni er ekki viðbjargandi og íslenska þjóðin hatar hana. Það er óumflýjanlegt að uppræta þessa stofnun og byggja nýtt kerfi á nýjum grunni.“

Þessi ófrægingarorð falla í sömu andrá og Aðalheiður hneykslast á óvarlegum orðum vararíkissaksóknara sem sæta nú kæru Samtakanna 78. Ólíklegt er að nokkur sjái ástæðu til að kæra orð Aðalheiðar enda marklítil á þeim stað þar sem þau birtast.

Reiði Aðalheiðar Ámundadóttur stafar af því að hún telur „hatur og ógestrisni“ ráða íslenskri útlendingalöggjöf og ákvörðunum hjá útlendingastofnun.

Með því að skoða tölur sést best hve þetta er röng og fordómafull afstaða.

Erlendum ríkisborgurum sem skráðir eru með búsetu hér á landi hefur fjölgað um 7,5% frá því í desember í fyrra. Var hlutfall erlendra ríkisborgara með búsetu hér um 14% 1. desember 2021. Alls voru rúmlega 59 þúsund erlendir ríkisborgarar skráðir með búsetu hér á landi 1. júlí 2022 og fjölgaði þeim um rúmlega fjögur þúsund frá fyrsta 1. desember 2021.

Ritstjórn Fréttablaðsins virðist í molum. Öllum stendur á sama um hvort farið er með rétt mál í leiðurum blaðsins. Ofstækið á að ráða.