2.10.2022 10:28

Ofsóknir í Flokki fólksins

Hvort hann gekk í Miðflokkinn eða úr honum er ekki upplýst. Hann stofnaði hins vegar til framboðs Flokks fólksins á Akureyri og lýkur ferli sínum þar undir „árásum og einelti“.

Hjörleifur Hallgríms skrifaði á vefsíðuna akureyri.is 19. september 2022:

„Í 65 ár hef ég verið með í kosningabaráttu og komið að líklega 16-17 sveitar- og alþingiskosningum en aldrei á langri ævi orðið vitni að þvílíkri sviksemi [og hjá þremur konum í Flokki fólksins á Akyreyri]. Ég vil líka geta þess að svikakvendin útilokuðu mig frá fundarsetu hjá framboðinu og sögðust ekki mæta ef ég mætti, sjálfur guðfaðir framboðsins.“

Deilurnar í Fólki flokksins á Akureyri drógu þann dilk á eftir sér að 30. september var skýrt frá því að stjórn Flokks fólksins undir forystu Ingu Sæland, guðmóður og leiðtoga flokksins, hefði vikið Hjörleifi Hallgríms úr flokknum vegna ósæmilegrar framkomu í garð varabæjarfulltrúa flokksins á Akureyri [kvennanna þriggja]. Þá var einnig sagt frá því að Brynjólfur Ingvarsson bæjarfulltrúi og Jón Hjaltason varabæjarfulltrúi hefðu sagt sig úr flokknum og að úrsögn þeirra hefði verið samþykkt.

Flokkur-folksins-AkureyriHjörleifur Hallgríms bauð fram þennan lista undir merkjum Flokks fólksins án þess að vera í flokknum. Nú logar allt í illindum innan flokksins vegna sundrungar meðal frambjóðendanna.

Eftir að fréttin um brottvikningu „guðföður“ framboðsins í bæjarstjórn Akureyrar birtist hafði Hjörleifur Hallgríms samband við fréttastofu ríkisútvarpsins og sagðist aldrei hafa verið í Flokki fólksins og því væri ekki hægt að reka sig úr flokknum!

Hér skulu sakarefni kvennanna þriggja ekki endurtekin en þær töldu sig hafa verið „lítilsvirtar og hunsaðar“. Jón og Brynjólfur andmæla þessum fullyrðingum harðlega og gagnrýna viðbrögð stjórnar flokksins. Ásakanirnar séu „lygaþvættingur“ og „fyrir neðan allar hellur“.

Stjórn Flokks fólksins hefur farið þess á leit við Brynjólf og Jón að þeir hverfi úr bæjarstjórn og nefndum hennar og víki fyrir konunum þremur. Þeir segjast ætla að sitja sem fastast.

Kjósendur á Akureyri veittu þeim félögum umboð til setu í bæjarstjórninni 14. maí 2022 en ekki stjórn Flokks fólksins. Á sínum tíma rak Inga Sæland þingmenn úr þingflokki sínum vegna þess að þeir höfðu tekið þátt í ósæmilegu tali um konur á bar í Reykjavík. Þingmennirnir hurfu að sjálfsögðu ekki af þingi en fundu sér skjól í Miðflokknum sem varð næstum að engu í þingkosningum fyrir ári.

Þá er nú upplýst að það var maður utan Flokks fólksins sem stofnaði til framboðs í nafni flokksins á Akureyri. Vaknar spurning um hvort Brynjólfur og Jón hafi verið í Flokki fólksins þegar þeir buðu sig fram í nafni hans eða aðeins góðvinir Hjörleifs Hallgríms „guðföður“.

Um ásakanir kvennanna þriggja og ákvörðun stjórnar Fólks flokksins undir forystu Ingu Sæland segir Jón Hjaltason við fréttastofu ríkisútvarpsins 30. september: „Þetta er grófasta einelti sem hugsast getur.“

Þegar Framsóknarflokkurinn klofnaði síðsumars 2017 skrifaði Hjörleifur Hallgríms á visir.is (24. október 2017) grein til stuðnings Miðflokknum sem hófst á þessum orðum:

„Eftir árásir og einelti, sem ég hélt að væri verið að reyna að uppræta, venjulega að ósekju, sá Sigmundur Davíð sig knúinn til að segja sig úr Framsóknarflokknum, sem var ekki sársaukalaust, og stofnaði Miðflokkinn.“

Stóð Hjörleifur Hallgríms með Miðflokknum þar til forráðamenn hans sátu á barnum með þingmönnum Flokks fólksins og töluðu illa um fólk, einkum konur.

Hvort hann gekk í Miðflokkinn eða úr honum er ekki upplýst. Hann stofnaði hins vegar til framboðs Flokks fólksins á Akureyri og lýkur ferli sínum þar undir „árásum og einelti“ eins og í Framsóknarflokknum á sínum tíma.

Það á ekki af sumum að ganga vegna þátttöku þeirra í stjórnmálum.