Ofsóknaræði í Kremlarkastala
Nú er aðferð stríðsglæpamannsins í Kreml að reyna að draga alla niður í svaðið til sín með lygi og blekkingum.
Þriðji þáttur Skuggastríðsins sem norrænu ríkisútvörpin, fyrir utan RÚV, gerðu um laumuspil Rússa var frumsýndur í gær. Hann heitir á dönsku Kampen om sandheden – Baráttan um sannleikann.
Áhorfendur eru í upphafi minntir á að nú sé ekki í fyrsta sinn beitt þungum áróðri frá Rússlandi til að móta almenningsálitið á Vesturlöndum ráðamönnum í Moskvu í vil. Á aðferðinni nú og í kalda stríðinu sé hins vegar mikill munur.
Þegar kommúnistar fóru með öll völd í Sovétríkjunum og austurhluta Evrópu var því haldið að okkur í vestri að stjórnarhættir og lífið fyrir austan væri mun betra en hjá okkur. Við ættum um þann kost að velja að lúta forystu Moskvuvaldsins og ganga kommúnismanum á hönd. Féllu ótrúlega margir fyrir þessari lygi.
Fyrir rúmum 30 árum varð sósíalíska glansmyndin að engu. Nú býður Vladimir Pútin einræðisherra ekki annan kost heldur leitast við að grafa undan trú íbúa lýðræðisríkjanna á eigin stjórnarhætti, ráðamenn og samfélag. Alið er á tortryggni og spennu innan ríkja og milli þjóða. Upplýsingafalsanir og lygaherferðir í netheimum einkenna þessa baráttu. Þótt ótrúlegt sé á hann ýmsa liðsmenn í vestri.
Í þriðja þætti Skuggastríðsins er athygli sérstaklega beint að skemmdarverkinu á rússnesku Nord Stream-gasleiðslunum á botni Eystrasalts, skammt frá Borgundarhólmi, í september 2022. Óupplýst er hver stóð að verknaðinum en danskur fréttamaður leiðir mjög sterkar líkur að sekt Rússa sjálfra.
Atvikið hefur verið notað til að ala á tortryggni í garð NATO og Bandaríkjanna fyrir utan ásakanir í garð Úkraínumanna. Það er enn til rannsóknar í Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi.
Fánastöngin er á hvolfþaki rússneska þingsins. Dróni, sendur af Bandaríkjamönnum, var skotinn niður yfir þessu þaki að sögn Rússa.
Nú í vikunni birtust allt í einu myndir á rússneskum samfélagssíðum sem áttu að sýna drónaárás á Kremlarkastala í þeim tilgangi að drepa Vladimir Pútin. Gerðu Moskvumenn talsvert með þetta atvik miðvikudaginn 3. maí en drógu síðan úr frásögnum á heimavelli enda vöknuðu þar spurningar um vanhæfni rússneska varnarkerfisins tækist ekki að granda dróna yfir höfuðborginni fyrr en yfir þaki öldungadeildar rússneska þingsins og beint fyrir framan myndavél.
Fyrst bárust þau boð frá Kreml að Úkraínumenn hefðu sent drónann. Þegar það þótti sanna ótrúlega hæfni þeirra til að ögra Rússum beindi Dmitríj Peskov, talsmaður Pútins, spjótum sínum að Bandaríkjastjórn, hún stæði að baki árásinni. Í Washington var strax svarað með orðinu „lygi“.
Atburður sem þessi hefði aldrei getað orðið í kalda stríðinu. Áróðurinn um sovéska yfirburði leyfði einfaldlega ekki slíkan leik með „sannleikann“. Aðferðin þá var að fá hollvini á Vesturlöndum til að bera lof á sovéska kerfið og óskeikula leiðtoga þess. Nú er aðferð stríðsglæpamannsins í Kreml að reyna að draga alla niður í svaðið til sín með lygi og blekkingum.
Að talsmaður Rússlandsforseta saki Bandaríkjastjórn um að standa að morðtilraun á Pútin með dróna, sömu aðferð og beitt er gegn hryðjuverkamönnum í Mið-Austurlöndum, boðar ekkert gott. Ofsóknarbrjálæði af þessum toga í Kremlarkastala er í einu orði sagt: ógnvekjandi.