27.1.2024 11:17

Ófriður um söngvakeppni

Væri talað á þennan hátt niður til ungra aðkomumanna hér á landi er hætt við að skoðanasystkini Möggu Stínu hæfu hróp um hatursorðræðu eða jafnvel rasisma. 

Í kvöld, 27. janúar, verða kynnt 10 lög í ríkissjónvarpinu sem keppa um þátttöku í söngvakeppni Evrópu, Eurovision. „Nú verður hulunni svipt af tónlistarfólkinu á bak við lögin sem keppa í Söngvakeppninni árið 2024,“ segir í dagskrákynningu. Þarna er ekki minnst á Eurovison vegna þess að það kemur í hlut sigurvegarans í keppninni hér að ákveða hvort lagið fer til Evrópukeppninnar í Malmø 11. maí 2024.

MmmPallborð Vísis 26. janúar 2024, frá vinstri: Stefán Eiríksson, Margrét K. Blöndal og Baldur Þórhallson (mynd:VÍSIR/ARNAR).

Vegna þess að Ísraelar eru meðal þeirra sem taka þátt í keppninni hefur hópurinn sem telur það stuðla að friði á Gaza að efna til ófriðar hér beitt sér gegn því að ríkisútvarpið (RÚV) taki þátt í keppninni. Til að efna til keppni hér sem undirbúin hefur verið um margra mánaða skeið tók Stefán Eiríksson útvarpsstjóri og hans fólk ákvörðun um að fyrst yrði keppt hér og síðan ákveðið hvort farið yrði til Malmø.

Þetta er eitur í beinum Margrétar Kristínar Blöndal, Möggu Stínu, tónlistarkonu og Palestínuaðgerðarsinna. Hún var í Pallborði Vísis föstudaginn 26. janúar með Stefáni útvarpsstjóra og Baldri Þórhallssyni, stjórnmálafræðiprófessor.

Eins og svo oft áður taldi Magga Stína sig tala fyrir hönd alls almennings. Teldi RÚV sig vera rödd almenningsútvarps, rödd þeirra sem greiddu hér skatta þá „vill meirihluti almennings að RÚV sniðgangi keppnina“ sagði hún.

Magga Stína treystir ekki þátttakendum í keppninni til að taka ákvörðun um hvort farið skuli til Malmø. Þátttakendurnir væru „yfirleitt ungt fólk ... alið upp við vestræn gildi; að þú eigir að koma þér áfram og ... matað á því að þetta sé einhver stökkpallur til að verða þér úti um frægð og frama“.

Væri talað á þennan hátt niður til ungra aðkomumanna hér á landi er hætt við að skoðanasystkini Möggu Stínu hæfu hróp um hatursorðræðu eða jafnvel rasisma. Að niðurlægja unga samlanda sína er talið vel við hæfi í hópi þessa fólks sem sést ekki fyrir í ofstæki sínu eins og dæmin sanna.

Baldur Þórhallsson sagði áhugavert að sjá að öfgahægrið og öfgavinstrið sækti gegn söngvakeppni. Þeim sem stæðu lengst til hægri blöskraði frjálsræðið sem væri í keppninni, klæðalitlir þátttakendur. Var auðheyrt að hann leit á Möggu Stínu tala fyrir þá sem eru lengst til vinstri.

„Þannig sameinast róttæka hægrið og róttæka vinstrið. Reynið að horfa á boðskap keppninnar, reynið að standa með honum,“ sagði Baldur. Magga Stína gaf ekkert fyrir þau orð. Þetta væri allt peningahít og peningamaskína og þannig virkuðu vestræn samfélög.

Nú reynir á hvort Magga Stína og félagar láti að sér kveða gegn keppendunum 10 sem kynntir verða í kvöld og geri atlögu að þeim eins og að ráðherrum. Ef til vill verður tjaldað fyrir framan keppnisstaðinn eða ruðst inn á hann með spjöldum og hrópum.

Fyrir þá sem gagnrýna RÚV á málefnalegan hátt án þess að heyra nokkru sinni hljóð úr horni þaðan er ánægjulegt að sjá hve Stefán Eiríksson er virkur í umræðunum um söngvakeppnina. „Okkur ber að flytja fréttir með hlutlausum og hlutlægum hætti,“ sagði Stefán í Pallborði Vísis. Vonandi hefur verið hlustað á þetta á fréttastofu RÚV.