18.10.2023 9:22

Ófriðarbálið magnast

Árásin á Svíana þrjá í Brussel er áminning um að ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs teygir sig á fjarlægari slóðir í ógnandi myndum.

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst ábyrgð á skotárásinni í Brussel að kvöldi mánudagsins 16. október þar sem tveir Svíar féllu og sá þriðji særðist. Segja samtökin að skotið hafi verið á Svíana vegna aðildar Svíþjóðar að hnattrænum samtökum sem berjast gegn heilögu stríði múslíma, jihad.

Samtökin Ríki íslams eru einnig þekkt sem IS, Isis eða Daesh. Í tilkynningu samtakanna sem birtist á Amaq, fréttasíðu jihadista, sagði að árásin hefði verið gerð „í samhengi við aðgerðir að undirlagi Ríkis íslams sem miði að því að granda íbúum hnattrænu samtakanna“.

Hnattrænu samtökin gegn Daesh komu til sögunnar árið 2014 þegar hryðjuverkamenn höfðu lagt undir sig stóra hluta af Írak og Sýrlandi. Á vefsíðu bandaríska utanríkisráðuneytisins má sjá lista yfir 86 ríki sem hafi skuldbundið sig til að uppræta ógnina sem rekja megi til ISIS. Á vefsíðu samtakanna  má kynnast starfi þeirra. Ísland er meðal ríkjanna 86.

Eftir árásina á Svíana hefur sænska utanríkisráðuneytið ráðlagt sænskum ríkisborgurum erlendis að „sýna aukna aðgæslu og árvekni“.

Morðingi Svíanna, Abdesalem Lassoued (45 ára) frá Túnis, dvaldist ólöglega í Belgíu. Talsmaður sænsku útlendingastofnunarinnar upplýsti að hann hefði afplánað fangelsisrefsingu í Svíþjóð á árunum 2012 til 2014. Talsmaðurinn vildi ekki segja frá hvers vegna hann var dæmdur til refsivistar. Hann hefði hins vegar verið sendur úr landi til annars Evrópuríkis með vísan til Dublin-reglugerðarinnar.

B6d281eb-a906-4535-8d4c-d04bc2dd23a5Joe Biden Bandaríkjaforseti og Benjamin Netanhayou, forsætisráðherra Ísrasels, á blaðamannafundi í Jerúsalem 18. október 2023.

Hamas-hryðjuverkin fyrir 10 dögum í nágrenni Gaza í Ísrael kveiktu mikið ófriðarbál sem logar nú á Gazasvæðinu og enginn veit hvernig verður slökkt. Hörmulegar fréttir bárust þaðan að kvöldi þriðjudagsins 17. október þegar árás á Al-Ahli Arab-sjúkrahúsið á Gaza varð mörg hundruð manns að aldurtila.

Ísraelar báru af sér alla sök á árásinni. Að morgni miðvikudagsins 18. október birti GeoConfirmed sem skilgreinir loftmyndir tilkynningu á X (áður Twitter) þar sem sagði:

„A missile launched by Palestinian Groups exploded mid-air and one of the pieces fell on the Al-Ahli Arab Hospital's yard.“ Flugskeyti skotið af palestínskum hópum sprakk á lofti og einn hluti þess datt í garð Al-Ahi Arab sjúkrahússins.

Þessi tilkynning staðfestir fullyrðingar Ísraelshers um að hann hafi ekki ráðist á sjúkrahúsið heldur megi rekja blóðbaðið þar til misheppnaðrar flugskeytaárásar systursamtaka Hamas á Ísrael. Joe Biden Bandaríkjaforseti kom til Ísraels 18. október og sagði á blaðamannafundi þar að Írsaelar hefðu ekki grandað sjúkrahúsinu.

Sjúkrahúsbruninn kann þó að verða neistinn sem kveikir í púðurtunnu Mið-Austurlanda.

Í Evrópu sjást vaxandi merki um spennu vegna átakanna og eftir að Svíarnir féllu í Brussel hafa öryggisráðstafanir verið auknar þar við sænska sendiráðið, sænsku kirkjuna og meira að segja IKEA.

Árásin á Svíana þrjá í Brussel er áminning um að ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs teygir sig á fjarlægari slóðir í ógnandi myndum.