Ofgnótt orku en samt skerðing
Í landi hreinnar, endurnýjanlegrar orku standa háværir andstæðingar gegn því að hún sé virkjuð.
Í fréttatíma sjónvarps ríkisins að kvöldi 7. desember var rætt við Hörð Arnarson, forstjóra Landsvirkjunar, í beinni útsendingu. Hann gerði grein fyrir ákvörðun Landsvirkjunar um að skerða sölu á raforku til þeirra sem hafa ekki samið um kaup á forgangsorku. Boðað hafði verið að skerðingin kynni að hefjast í janúar en ákvörðun um hana var tekin miðvikudaginn 1. desember. Langtímavandinn ræðst af mikilli eftirspurn forgangsorkukaupenda, ofurálagi á flutningskerfi og litlu vatni í virkjanalónum. Bráðavandann sem leiddi til skerðingar nú má rekja til bilana á tækjum.
Fréttamaður sjónvarpsins reyndi að læða því að með spurningum sínum að skerðingin nú kæmi til sögunnar vegna þrýstings frá nýrri ríkisstjórn, að um einskonar leiksýningu væri að ræða, væntanlega til að knýja á um einhver pólitísk stefnumál. Hörður bar það til baka og sagði að auðvelt væri að sannreyna að hann færi með rétt mál með því að kynna sér upplýsingar sem eru aðgengilegar á netinu, til dæmis má sjá vatnstöðu í virkjanalónum þar. Þá hafa birst fréttir um að álver og aðrar bræðslur sem nota raforku séu keyrðar á fullum afköstum. Landsnet hefur ítrekað sagt frá vandræðum sínum við að fá leyfi til línulagna.
Vandræði eru við flutning á raforku (mbl(Kristinn Magnússon).
Kristinn Pétursson, ráðgjafi í raforkumálum og fyrrv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í grein í Morgunblaðinu 7. desember:
„Á Íslandi eru komnar fram vísbendingar um að barátta „umhverfisvænna græningja“ (Landverndar og co) sé í þann veginn að innleiða upphaf raforkukreppu á Íslandi. Forsvarsmenn Landverndar hafa í mörg ár barist gegn nýjum raforkuverum með þeirri fullyrðingu „að það sé til næg raforka“.
Nýlega tilkynnti Landsvirkjun áform um skerðingu raforku til fiskmjölsverksmiðja – og loðnuvertíðin ekki byrjuð! Vatnshæð Þórisvatns er mjög lág og ákvörðun Landsvirkjunar því skiljanleg.
Tíu stór fyrirtæki í vinnslu uppsjávarafurða nota samanlagt orku á við þokkalegt álver þegar allt er í fullum gangi. Áformuð skerðing raforku nær einungis til gufuframleiðslu við mjölvinnslu en þá þarf að nota olíu þegar skerðingar eru virkar.
Raforkulausnir (til að koma í veg fyrir hátt raforkuverð) eru best fólgnar í því að hafa nægilegt framboð á raforku í samræmi við eftirspurn. Verði raforkuskortur er hækkun á verði einn af þeim kostum sem til greina koma. Lausnin er að tryggja næga raforku, með því að virkja meira.“
Þarna er vikið að kjarna málsins. Í landi hreinnar, endurnýjanlegrar orku standa háværir andstæðingar gegn því að hún sé virkjuð.
Í BBC er nú fyrirlestraröð um gervigreind og áhrif hennar. Í nýju James Bond-myndinni er hún nýtt til að finna einstaklinga sem eru réttdræpir að mati þeirra sem hafa eyðingarvopnin á valdi sínu. Fyrirlesarinn sagði í samtali að ekki mætti gleyma því að meðal okkar væru ýmsir sem teldu jörðina betur komna án mannsins. Hann væri slíkur skaðvaldur og náttúru- og loftslagssóði.
Allt um kring er virkjanleg orka án varanlegrar eyðileggingar en samt er lögð höfuðáhersla á sektarkenndina - litið á orkuskerðingu sem leikaraskap.