3.11.2022 10:50

Öfgavinstri Gretu Thunberg

Greta Thunberg ætlar ekki aðeins að halda áfram sem aðgerðarsinni í loftslagsmálum heldur ætlar hún að láta að sér kveða í baráttu gegn „kúgunarkerfi“ vestræns kapítalisma.

Sænska stúlkan Greta Thunberg sem nú er orðin 19 ára og gat sér heimsfrægð fyrir nokkrum árum vegna baráttu sinnar í loftslagsmálum sendi nýlega frá sér bók, The Climate Book. Hún kynnti hana í Royal Festival Hall í London sunnudaginn 30. október. Þar fór hún inn á nýjar pólitískar brautir að sögn The Telegraph miðvikudaginn 2. nóvember.

Greta Thunberg ætlar ekki aðeins að halda áfram sem aðgerðarsinni í loftslagsmálum heldur ætlar hún að láta að sér kveða í baráttu gegn „kúgunarkerfi“ vestræns kapítalisma. Hún skipar sér í raðir þeirra sem halla sér lengst til vinstri og telja kapítalismann „rasískan“ í eðli sínu.

3QXRL3IISFKK5LB2FSEXOJ47HMGreta Thunberg kynnir loftslagsbók sína í London 30. október 2022.

Við kynningu bókarinnar í London hvatti hún til „víðtækrar kerfisbreytingar“ og fullyrti að valdamenn hefðu lagt grunn að „eðlilegu“ ástandi sem leitt hefði til „loftslags-hruns“. Hún sagði:

„Við munum aldrei kynnast neinu eðlilegu ástandi aftur af því að það sem var talið „eðlilegt“ hafði þegar skapað krísu. Það sem við viljum að talið sé eðlilegt er öfgakerfi reist á arðráni fólks og plánetunnar.

Það er kerfi mótað af nýlendustefnu, heimsvaldastefnu, kúgun og þjóðarmorði, mótað af þeim sem kallaðir eru norðurbúar og hafa safnað auði sem enn mótar heimsskipulag samtímans.

Sé hagvöxtur eina forgangsmál okkar, búum við einmitt núna við þær aðstæður sem við gátum vænst.“

Skoðun Gretu Thunberg er að að kreppan í loftslagsmálum eigi „rætur í rasísku auðlindaráni bæði til skaða fyrir einstaklinga og plánetuna í þeim tilgangi að hámarka skammtímagróða fámenns hóps“.

Ýmsir hafa brugðist harkalega við þessum flokkspólitísku viðhorfum á samfélagsmiðlum. Gagnrýnendur benda á að ummæli Gretu Thunberg sýni að ástæðurnar fyrir hatri hennar á kapítalismanum snerti alls ekki loftslagsbreytingar.

Bandarískur höfundur bóka um þessi mál, Michael Shellenberger, sagði á Twitter að „allt kerfi kapítalismans“ sem Greta hallmælti hefði getið af sér meira umfram magn fæðu en nokkru sinni hefði þekkst í sögu mannkyns, meðal lífaldur manna hefði hækkað úr 30 árum í 70 og færri týndu lífi nú vegna náttúruhamfara en nokkru sinni fyrr.

Í samtali við Samiru Ahmed hjá BBC sagði Greta Thunberg að „fasistahreyfingum sem bjóða auðveldar falslausnir og undanbrögð vegna flókinna vandamála fjölgar og þær ávinna sér eðlilegan sess“.

Thunberg sagðist ekki ætla að sitja Cop27 loftslagsráðstefnuna í Sharm El Sheikh í Egyptalandi 6. til 18. nóvember. Hún væri til marks um „grænþvott“ enda haldin á vinsælum ferðamannastað í landi þar flest mannréttindi væru fótum troðin.

Eftir að frásagnir í þá veru sem hér er lýst birtust í fjölmiðlum sagði Greta Thunberg á Twitter að orð hennar væru slitin úr samhengi af þeim sem afneituðu loftslagsbreytingun.