4.7.2025 11:00

Óðagot í þágu Hamas

Óðagotið við að flagga fána Palestínu við Ráðhús Reykjavíkur breytir engu um ástandið á Gaza. Líf Hamas hangir á bláþræði.

Efnt var til aukafundar í borgarráði Reykjavíkur fimmtudaginn 3. júlí. Þar var lagt fram trúnaðarmerkt bréf borgarritara, dags. 1. júlí 2025, varðandi áhættumat á flöggun á fána Palestínu við stjórnsýsluhús Reykjavíkurborgar. Sagt er að vástigið við ráðhúsið hækki vegna flöggunarinnar, efla verði öryggisgæslu þar.

Þá lögðu borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins fram bókun um flöggun fána Palestínu við stjórnsýsluhús Reykjavíkurborgar. Var óskað eftir „ að trúnaður myndi ríkja á meðan unnið væri að undirbúningi framkvæmdar.“ Það er enginn vissi um áformin um að flagga fyrr en fáninn yrði dreginn að húni. Í lok bókunarinnar segir: „Samstarfsflokkarnir eru stoltir af þessari ákvörðun, sem tekin er af yfirvegun og með góðum undirbúningi.“

1579512Við Ráðhús Reykjavíkur 3. júlí 2025. Líf Magneudóttir, formaður borgarráðs og borgarfulltrúi VG, heldur í horn fána Palestínu þegar hann er dreginn að húni. Við hlið hennar stendur Alexandra Briem, forseti borgarstjórnar og borgarfulltrúi Pírata. Flokkum þeirra beggja var hafnað í þingkosningunum 30. nóvember 2024. (Ljósmynd/Reykjavíkurborg.)

Af bókunum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins má ráða að meðferð þessa máls hefur einkennst af pukri og vandræðagangi hjá samstarfsflokkunum. Lögðu sjálfstæðismenn til frávísun við tillögu meirihlutans en þegar hún var felld lýstu þeir efnislegri andstöðu við framkvæmd tillögu meirihlutans. Vildu þeir að Reykjavíkurborg flaggaði frekar með friðarfána.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins sagði fordæmalaust að erlendum fána væri flaggað við ráðhúsið án þess að full samstaða ríkti um slíka ákvörðun á meðal allra flokka í borgarstjórninni. Þannig hefði það verið þegar fáni Úkraínu var dreginn að húni við Ráðhúsið. Studdi hann tillögu sjálfstæðismanna um friðarfána.

Borgarfulltrúi Viðreisnar furðaði sig „á hamaganginum og óðagotinu“ í vinstri samstarfsflokkunum vegna máls sem gæti vel beðið í viku eftir næsta borgarráðsfundi. Vinnubrögð af þessu tagi endurspegluðu „vel spennustigið sem nú [væri] á vinstri væng stjórnmálanna“. Vildi borgarfulltrúinn að forsætisnefnd borgarstjórnar fengi flöggunarreglur til meðferðar.

Hér skal ekkert undan dregið í stuðningi við kröfur um hlé á átökum á Gaza og varanlegan frið. Hryðjuverks Hamas 7. október 2023 í Ísrael verður jafnan minnst sem eins af mestu voðaverkum sögunnar. Afleiðingarnar voru fyrirsjáanlegar. Kenningar eru um að einmitt vegna þeirra hefðu stjórnendur Hamas látið til skarar skríða. Stofnað yrði til samstillts átaks til úthrópunar á Ísrael á Vesturlöndum þegar ísraelski herinn svaraði árás Hamas.

Hernaðarlega hafa Ísraelar sannað að þeir hafa algjöra yfirburði. Þeir hafa opnað sér leið til yfirráða í lofthelgi Írans og brotið á bak aftur staðgengla írönsku klerkastjórnarinnar í næsta nágrenni sínu.

Líf Hamas-samtakanna hangir á bláþræði og mótmæli heimafólks á Gaza gegn þeim vex jafnt og þétt. Þá njóta þau ekki lengur skjóls UNRWA, hjálparsamtaka SÞ. Þau mega sín nær einskis þótt ríkisstjórn Íslands ákveði að afhenda þeim 150 m. kr.

Óðagotið við að flagga fána Palestínu við Ráðhús Reykjavíkur breytir engu um ástandið á Gaza. Fáninn er fyrst og síðast dreginn upp til marks um óvild í garð gyðinga og Ísraels. Vegna Hamas, aðgerða og örlaga, ætti að flagga honum í hálfa stöng. Hann var dreginn að húni of seint til að fagna sigri glæpamannanna.