19.1.2024 9:50

Óbilgirni á Austurvelli

Tjaldbúar á Austurvelli knýja af hreinni óbilgirni á um aðgerðir af hálfu íslenskra stjórnvalda sem ekki eru á þeirra valdi. 

Sagt var á dögunum að No borders og fleiri samtök hefðu heimild til tjaldbúða á Austurvelli til 17. janúar, það er fram yfir setu Dags B. Eggertssonar á stóli borgarstjóra. Tjöldin voru reist á Þorláksmessu eða aðfangadag án þess að þáv. formaður borgarráðs, núverandi borgarstjóri, Einar Þorsteinsson, vissi um þau. Í byrjun janúar sagðist hann ætla að kanna málið. Hvort hann ákvað að framlengja tjaldleyfið eða ekki er óupplýst en tjöldin voru enn á Austurvelli að morgni 18. janúar.

Yfirlýstur tilgangur tjaldbúa er að knýja á um að fólk komist frá Gaza til fjölskyldna sinna á Íslandi samkvæmt reglum um fjölskyldusameiningar palestínskra dvalarleyfishafa á Íslandi.

1462904Palestínutjald á Austurvelli (mynd: mbl/Óttar).

Dómsmálaráðuneytið birti miðvikudaginn 17. janúar greinargerð um stöðu þess máls hér eftir samráð við norræn stjórnvöld og annarra vinaþjóða. Þar kemur fram að fjöldi fólksins sem Ísland snertir sé verulegur „langt umfram nágrannaríki Íslands miðað við höfðatölu, og í mörgum tilfellum einnig í eiginlegum tölum“. Ísland skeri sig enda úr meðal Norðurlanda þegar komi að alþjóðlegri vernd, bæði í fjölda umsókna og veitingu.

Þá segir að Norðurlönd hafi í einhverjum tilvikum aðstoðað fólk yfir landamæri Gaza og Egyptalands, í flestum tilvikum ríkisborgara, fjölskyldur þeirra og dvalarleyfishafa sem höfðu dvalarleyfi fyrir 7. október og höfðu áður dvalið í viðkomandi landi. Að jafnaði sé um fáa einstaklinga að ræða skv. upplýsingum stjórnvalda og hafi fjölskyldusameiningar almennt ekki verið veittar þar frá 7. október, ólíkt því sem hér er.

Það var 7. október 2023 sem Hamas-liðar frömdu grimmdarverk í Ísrael og hófu stríðið sem enn er háð með miklu mannfalli á Gaza.

Tjaldbúar á Austurvelli knýja af hreinni óbilgirni á um aðgerðir af hálfu íslenskra stjórnvalda sem ekki eru á þeirra valdi. Það er eins og þetta fólk haldi að íslenskum firvöldum beri skylda til þess að senda íslenska ríkisborgara til þess að sækja fólk á Gaza. Það er ekki um neina slíka skyldu að ræða. Skyldan „er sú að gefa út dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar séu lögbundin skilyrði uppfyllt,“ segir í greinargerð ráðuneytisins.

Í greinargerðinni segir einnig: „Ísland fær hlutfallslega margfalt fleiri umsóknir um alþjóðlega vernd en hin Norðurlöndin.“ Ráðuneytið birtir tölur þessu til staðfestingar. Þá eru einnig birtar tölur sem sýna að umsóknir Palestínumanna um vernd á Íslandi eru margfalt fleiri en annars staðar á Norðurlöndunum.

Umræður um útlendingamál hafa um langt árabil verið reistar á blekkingum um að hér sé hælisleitendum sýnd ómannúðleg harka. Málum hefur aldrei verið þannig háttað sé litið til þess sem annars staðar gerist. Í krafti blekkinganna hafa mótast reglur sem leiða til þess ófremdarástands sem hér er lýst.

Borgarstjórn Reykjavíkur undir forystu meirihluta Samfylkingar og fylgifiska hennar ber mikla ábyrgð á því að villa um fyrir almenningi í þessum málum. Tjöldin á Austurvelli í boði hennar eru besta sýnilega táknið um það.