4.11.2019 9:08

NYT afhjúpar spillt landbúnaðarkerfi ESB

Segir blaðið að rannsókn þess í níu löndum leiði í ljós að styrkjakerfið sé spillt og sjálfhverft.

Af hálfu talsmanna ESB-aðildar hér á landi er spjótunum gjarnan beint gegn íslenskum landbúnaði og látið eins og hann njóti of mikillar verndar og opinbers fjárstuðnings. Þeir sem lesa það sem ESB-aðildarsinnar segja um íslenskan landbúnað geta hæglega ályktað sem svo að innan ESB sé á allt annan og betri veg staðið að landbúnaðarmálum, þar tíðkist hvorki verndarsjónarmið í þágu landbúnaðar né niðurgreiðslur svo að ekki sé minnst á spillingu.

Í The New York Times birtist í dag (4. nóvember) löng úttekt á ESB-landbúnaðarkerfinu undir fyrirsögninni: Oligarchs and populists milk the E.U. for millions – Oligarkar og popúlistar mjólka milljónir frá ESB. (Oligarkar eru auðjöfrar í skjóli spillts ríkisvalds.)

Merlin_160737684_d0c28151-5c9b-4fa9-952c-598beeed3a3e-articleLarge

Blaðið segir að ár hvert greiði ESB 65 milljarða dollara í niðurgreiðslur til landbúnaðar og með fjármununum eigi að standa við bakið á bændum og dreifðum byggðum. Þetta sé langstærsti einstaki liðurinn í fjárlögum ESB.

Rannsókn sýni hins vegar að í mið- og austurhluta Evrópu renni fjármunirnir að mestu til þeirra sem eru vel tengdir og valdamiklir. Í þessum löndum hafi ríkisstjórnir, oft undur forystu popúlista, mikil áhrif innan þess ógagnsæja kerfis sem kemur að úthlutun styrkjanna.

Segir blaðið að rannsókn þess í níu löndum leiði í ljós að styrkjakerfið sé spillt og sjálfhverft.

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, notar styrkina til að hygla vinum og vandamönnum. Hann hefur séð til þess að þeir eignist land sem síðan gerir þá styrkhæfa. Í Tékklandi fengu fyrirtæki í eigu Andrejs Babis forsætisráðherra 42 milljónir dollara á landbúnaðarstyrki í fyrra.

Blaðið segir að nýr landbúnaðarsamningur komi til afgreiðslu á næsta ári innan ESB. Ólíklegt sé að nokkuð verði gert til að herða á kröfum um ráðstöfun peninganna vegna þess að niðurgreiðslurnar gegni lykilhlutverki til að treysta samheldni innan sambandsins. Margt bendi til að leiðtogar einstakra ESB-ríkja fái enn meira vald en til þessa við ráðstöfun fjárins.

Ritstjórn The New York Times segir að blaðamennirnir hafi orðið að fara fram hjá ESB við öflun grunnupplýsinga við rannsókn sína. Í hvert sinn sem blaðamenn okkar „reyndu að kíkja á bak við tjöldin gerðu embættismenn ESB eða heimamanna ráðstafanir til að loka á þá,“ segir aðstoðarritstjóri alþjóðadeildar blaðsins sem stjórnaði rannsókninni.

Óvíst er hver viðbrögð ESB-manna verða við þessum uppljóstrunum bandaríska blaðsins. Það er dæmigert fyrir umræðurnar um landbúnaðarmál ESB og alla fjármunina sem til þeirra renna frá skattgreiðendum ESB-ríkjanna að það .þurfi bandaríska blaðamenn til að svipta hulunni af spilltu kerfinu.