30.8.2023 9:54

Nýsköpun á Akranesi

Ætlunin er að áfram verði unnið að því að efla starfsemi Breiðar þróunarfélags sem vettvangs nýsköpunar og frumkvöðlastarfs,

Atvinnulíf á Akranesi hefur tekið stakkaskiptum síðan þar starfaði sementsverksmiðja og stunduð mikil útgerð og fiskvinnsla. Í gömlu frysti- og fiskvinnsluhúsi Haraldar Böðvarssonar þróast ný atvinnustarfsemi.

Brim hf. og Akraneskaupstaður stofnuðu í júlí 2020 Breið þróunarfélag og ákváðu í vor með nýjum samningi að standa sameiginlega að starfsemi þróunarfélagsins til loka árs 2026.

371075342_152689404545084_2053657105989964475_nMeð Gísla Gíslasyni þar sem Running Tide ræktar þörungana (mynd: Hlédís Sveinsdóttir).

Við endurnýjun samstarfssamningsins til næstu þriggja ára voru aðilar hans sammála um „að verulegur og jákvæður árangur“ hefði orðið af samstarfinu frá stofnun Breiðar og árangurinn mætti meðal annars sjá í uppbyggingu nýsköpunarseturs og nýjum störfum sem skapast hefðu á Akranesi í ýmsum greinum en þó aðallega rannsóknum og þróun.

Ætlunin er að áfram verði unnið að því að efla starfsemi Breiðar þróunarfélags sem vettvangs nýsköpunar og frumkvöðlastarfs þar sem áhersla verður til dæmis lögð á rannsóknir og nýtingu auðlinda hafsins, aðgerðir gegn súrnun sjávar og aðgerðir í loftslagsmálum til að mæta markmiðum Íslands í loftslags- og umhverfismálum.

Gísli Gíslason, stjórnarformaður Breiðar, sýndi mér húsakynni félagsins og kynnti mér starfsemina í tengslum við fund sem ég sat með Hlédísi Sveinsdóttur þar í gær. Hún er ein margra sem hefur starfsstöð í samvinnurými hússins.

Ýmsar byggingar í þágu nýsköpunar hef ég heimsótt hér á landi og erlendis en enga á borð við þá sem Breiðin ræður yfir á Akranesi. Hægt og sígandi hefur færst mjög fjölbreytt starfsemi í húsið og enn er þar rými fyrir fleiri. Segja má að þarna sé unnið að öllu milli himins og jarðar.

Viðamesta starfsemin er í Öldu, aðstöðu Running Tide í gömlu fiskvinnslurými á fyrstu hæð Breiðar þar sem sér út á sjóinn. Þar eru ræktaðir þörungar til að binda kolefni í hafdjúpunum og stundaðar rannsóknir.

Marty Odlin, stofnandi og forstjóri bandaríska fyrirtækisins Running Tide, birti á vefsíðu félagsins í janúar 2023 yfirlýsingu á vefsíðu félagsins um það hvers vegna hann hefði ákveðið að flytja rannsóknar- og þróunarstöð þess frá Casco-flóa í Maine-ríki, til Akraness.

Odlin ber mikið lof á nýsköpun í íslenskum sjávarútvegi og fiskiveiðistjórnun hér. Kynni hans af því sem hér hefur gerst sannfærði hann um að velja Ísland fyrir nýsköpun sína. Í því felast miklar kröfur að standa undir öllu lofinu sem hann ber á land og þjóð í yfirlýsingu sinni.

Running Tide hóf starfsemi hér á landi í fyrra og verður spennandi að fylgjast með hvaða árangri félagið nær frá Akranesi.

Ekki er nóg með að Brim hafi lagt til þetta mikla og góða húsnæði til nýsköpunar á Akranesi heldur vinnur útgerðarfélagið nú með Akraneskaupstað að breytingum á aðalskipulagi Breiðarinnar og nýju deiliskipulagi á grundvelli vinningstillögu um lifandi samfélag við sjó. Það er íbúðabyggð fyrir vestan gamla fiskvinnslusvæðið. Tillagan var unnin af arkitektastofunni Arkþing/Nordic og Eflu verkfræðistofu. Það er markmið aðila að skipulagsvinnu verkefnisins ljúki á árinu 2025.

Samfélagsgerðin á Akranesi breytist í samræmi við nýja tíma.