6.5.2020 15:38

Nýr tónn gagnvart COVID-19-faraldrinum

Þetta er nýjasta skrefið í umræðum um COVID-19. Þar verður því haldið fram eftir á að betra hefði verið að fara sér hægar.

Í dag (6. maí) sendi Statens Serum Intstitut í Danmörku frá sér tilkynningu um að kórónaveiran kynni að verða sjálfdauð en áfram þyrfti að sýna varúð. Í dönskum blöðum birtast nú greinar þar sem segir að alltof langt hafi verið gengið við lokun á atvinnustarfsemi og viðskiptum í landinu.

Þetta er nýjasta skrefið í umræðum um COVID-19. Þar verður því haldið fram eftir á að betra hefði verið að fara sér hægar.

Þetta verður ágreiningsefni innan einstakra landa án þess að haldbær niðurstaða fáist fyrr en eftir svo langan tíma að enginn hefur lengur áhuga á málinu. Allir verða vonandi önnum kafnir við að ná sér að nýju á réttan kjöl.

Vafalaust finnst einhverjum þetta næsta kaldhæðnislegt tal um stóralvarlegt mál sem verður lengi í minnum haft og á eftir að leggjast þungt á marga enn um langt skeið. Á hinn bóginn er óhjákvæmilegt að fikra sig áfram í umræðunum. Sjálfur er ég sömu skoðunar og áður að reka beri undanhald veirunnar af sama þunga og tekið var á móti henni þótt aðferðirnar gegn henni breytist.

Kronik-0705-20Úr Jyllands-Posten

Hér er frétt mbl.is af blaðamannafundi Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis í dag:

„Sóttvarnalæknir ítrekaði að það yrði að fara hægt í afléttingu á takmörkunum sem settar hafa verið á vegna kórónuveirunnar þó vel hafi gengið síðustu daga. Ekkert smit hefur greinst hér á landi síðustu þrjá daga og einungis 39 eru með virk smit.

Þrátt fyrir góðan árangur og mjög fá smit undanfarna daga sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi að það þyrfti að bíða í tvær til þrjár vikur eftir hvert skref afléttinga en næsta skref er áætlað 25. maí.

Hins vegar er mögulegt að lagt verði til að taka stærri skref í hvert sinn.

„Það er óraunhæft að telja að þessi veira sé horfin,“ sagði Þórólfur og bætti við að tíminn á milli skrefa væri mikilvægur.

Hann sagði að vissulega væri álitamál hversu hratt eigi að aflétta takmörkunum og engin ein rétt uppskrift í þeim málum. Hins vegar eru allir sammála um eitt; það megi ekki fara of hratt í tilslakanir.“

Þórólfur hefur verið raunsær en varkár í mati sínu en af þessu orðum hans má ráða að hann gefur út meiri slaka en oftast áður þótt hann vilji að þjóðarskútan fari hægt af stað.

Hvað sem veirunni líður er skynsamlegt að læknar sem ráðið hafa miklu um ferðina til þessa stígi varlega til baka í „eðlilegt“ ástand. Þeir sem bera ábyrgð á því að lækna samfélagið sjálft eftir faraldurinn verða að taka málin öðrum tökum. Um það snúast opinberar umræður um allan heim um þessar mundir.