24.7.2019 9:32

Nýr breskur forsætisráðherra

Boris Johnson býr yfir pólitískri náðargáfu hvort hún dugar honum til að leysa ógnarvanda Breta á þessari stundu kemur í ljós.

Skipt verður um forsætisráðherra í Bretlandi í dag (24. júlí). Boris Johnson tekur við af Theresu May.

David Cameron sagði af sér sem forsætisráðherra eftir brexit-atkvæðagreiðsluna í júní 2016. Hann hélt að samkomulag sitt við ESB mundi tryggja að Bretar yrðu áfram í sambandinu og þar með tækist honum einnig að sætta andstæðar fylkingar innan Íhaldsflokksins.

Allt fór þetta á annan veg. Bretar samþykktu úrsögn ESB. Cameron sagði af sér, Aðildarsinninn May tók við og ákvað að rjúfa þing og efna til kosninga til að styrkja umboð sitt til úrsagnarviðræðna við ESB. Þetta voru fyrstu mistök May. Íhaldsflokkurinn missti nauman þingmeirihluta og síðan leiddi May minnihlutastjórn í skjóli smáflokks á Norður-Írlandi.

May mistókst einnig að tryggja meirihluta fyrir skilnaðarsamningi sínum við ESB. Eftir ítrekaðar tilraunir hennar gafst þingflokkur íhaldsmanna upp á May og stofnað var til leiðtogakjör sem lauk með 66% sigri Johnsons þriðjudaginn 23. júlí.

Brexitforinginn Boris Johnson lofar úrsögn Breta úr ESB 31. október hvort sem það gerist í sátt við ESB eða ekki. Þingið er andvígt úrsögn án samnings við ESB. Þá hafa þingmenn búið sig undir gagnaðgerðir kæmi nýjum forsætisráðherra til hugar að senda þingið heim til að ýta því til hliðar vegna úrsagnar án samnings.

EAMDiAbXUAEzD38EAMMH3iXkAIOMYqEAMMAuoXYAAR9oLEAMPWZMUEAANmgZEAMPhzuUEAAnzz0Hér eru forsíður nokkrar breskra blaða miðvikudaginn 24. júlí. Enska orðið dude er meðal annars íslenskað með orðinu spjátrungur.

Allt sem Cameron ætlaði sér með þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2016 hefur farið í handaskolum. Niðurstaðan hefur ekki aðeins klofið Íhaldsflokkinn í herðar niður heldur skapað þjóðinni allri mikinn stjórnmálalegan og stjórnskipulegan vanda. Það sér ekki fyrir enda á þessum vanda þótt nýr forsætisráðherra komi til sögunnar.

Boris Johnson býr yfir pólitískri náðargáfu hvort hún dugar honum til að leysa ógnarvanda Breta á þessari stundu kemur í ljós. Það tekst ekki öllum blaðamönnum að verða forsætisráðherrar.