11.2.2020 8:13

Nýr áfangi RÍM-verkefnisins

Undirritunin staðfestir að mennta- og menningarmálaráðherra felur fyrir hönd ráðuneytis síns og ríkisstjórnarinnar Snorrastofu daglega umsýslu með verkefninu.

Hér hefur oftar en einu sinni verið fjallað um verkefnið Ritmenning íslenskra miðalda. Nýr áfangi þess hófst í Reykholti laugardaginn 8. febrúar 2020 eins og neðangrein frétt á vefsíðu Snorrastofu staðfestir

„Laugardaginn 8. febrúar s.l. kom Lilja Dögg Alfreðsdóttir í Snorrastofu til undirritunar á viðbótarsamningi ríkisins og stofnunarinnar, sem markar formlegt upphaf rannsókanrverkefnisins Ritmenning íslenskra miðalda (RÍM). Með samningnum er Snorrastofu falin dagleg umsýsla með verkefninu næstu 5 árin. Framundan er því auglýsing mennta- og menningarmálaráðuneytisins um styrki til úthlutunar. Lilja gerði arf Snorra Sturlusonar að umtalsefni og að henni væri nú efst í huga að auka hæfni unga fólksins til að lesa og þekkja um leið okkar helsta höfund miðalda, Snorra Sturluson. Lilja notaði ævisögu Óskars Guðmundssonar um Snorra máli sínu til stuðnings og las uppúr henni um námsskrána í Odda forðum daga.

Fréttatilkynning um málefnið:

RÍM-verkefnið formlega hafið í Reykholti

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu, skrifuðu að morgni laugardags 8. febrúar 2020 undir viðauka við rekstrarsamning Snorrastofu og ríkisins, sem gildir næstu fimm árin. Fór athöfnin fram í Snorrastofu í Reykholti.

Undirritunin staðfestir að mennta- og menningarmálaráðherra felur fyrir hönd ráðuneytis síns og ríkisstjórnarinnar Snorrastofu daglega umsýslu með verkefninu Ritmenning íslenskra miðalda (RÍM). Stofnskrá þess var undirrituð í Reykholti í ágúst 2019 en ríkisstjórn Íslands stofnaði til RÍM í tilefni af því að liðin voru 75 ár frá stofnun lýðveldis á Íslandi.

Meginmarkið RÍM-verkefnisins er að efla rannsóknir sem tengjast þeim stöðum á Íslandi þar sem ritmenning blómstraði á miðöldum. Rannsóknirnar munu m.a. tengjast fornleifafræði, sagnfræði, textafræði og bókmenntafræði.

Reiknað er með að 35 milljónum kr. verði árlega veitt til verkefnisins í fimm ár frá og með árinu 2020.

Yfirstjórn verkefnisins er hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem auglýsir innan skamms eftir umsóknum um styrki. Þegar umsóknir hafa borist skipar ráðuneytið úthlutunarnefnd. Hún gerir tillögur til ráðherra mennta- og menningarmála sem úthlutar styrkjum að höfðu samráði við forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra.

Eins og áður segir verður öll dagleg umsýsla vegna RÍM-verkefnisins í höndum Snorrastofu í Reykholti.“

Lilja-2Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu, og Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra handsala samninginn við Snorrastofu laugardaginn 8. febrúar. (Ljósm. Guðl. Ósk.)