13.12.2018 13:00

Nýmæli á þingi: samprófun þingmanna

Að þingnefnd samprófi þingmenn vegna samtala þeirra hvort sem er innan þings eða utan er nýmæli, væntanlega hefur ákvörðun um þetta stoð í þingsköpum

Ógjörningur er að halda öllu til haga sem sagt hefur verið og gert eftir ömurlegan fund forráðamanna þingflokka Miðflokksins og Flokks fólksins á Klaustur-bar að kvöldi þriðjudags 20. nóvember. Rannsóknir fara fram á  að minnsta kosti þremur stöðum: fyrir héraðsdómi Reykjavíkur, siðanefnd alþingis og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis.

Vegna rannsóknar þingnefndarinnar birti Miðflokkurinn yfirlýsingu þar sem segir: „Það er afar fátítt að þingnefndir séu notaðar í jafn augljósum pólitískum tilgangi og átti að gera. Slíkt á ekki að viðgangast.“

Þetta birtist að morgni miðvikudags 12. desember en þann dag ætlaði að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að boða á sinn fund Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, og Gunnar Braga Sveinsson, varaformann Miðflokksins, vegna ummæla Gunnars Braga á fundinum 20. nóvember.

Hvorki Sigmundur Davíð né Gunnar Bragi svöruðu fundarboðinu og var fundinum aflýst.

Efnahags-ogvidskiptanefnd-opinn-fundurÞingnefnd að störfum.

Samkvæmt lögum um utanríkisþjónustuna þarf ekki að auglýsa  sendiherrastöður. Ríkisendurskoðun gerði athugasemd við þessa undanþágu í skýrslu frá 2015. Utanríkisráðuneytið, undir stjórn utanríkisráðherra Gunnars Braga Sveinssonar hafnaði athugasemdinni.

Alþingi hefur staðfest undanþáguna frá auglýsingaskyldu, síðast í nefndum þingsins sem ræddu skýrslu ríkisendurskoðunar frá 2015, þar á meðal stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Bjarni Benediktsson og Guðlaugur Þór Þórðarson segjast ekki skulda Gunnari Braga Sveinssyni neitt vegna þess hvernig hann beitti skipunarvaldi sínu sem utanríkisráðherra. Gunnar Bragi segir að ekki beri að túlka orð sín á fundinum 20. nóvember á þann veg að hann eigi sendiherraembætti inni hjá Sjálfstæðisflokknum.

Að þingnefnd samprófi þingmenn vegna samtala þeirra hvort sem er innan þings eða utan er nýmæli, væntanlega hefur ákvörðun um þetta stoð í þingsköpum. Varla er farið út á þessa braut án blessunar forseta alþingis og ráðgjafa hans.

Skyldi nefndin ætla að efna til samprófana um megintilgang fundar sexmenninganna 20. nóvember: að kljúfa Flokk fólksins með því að bjóða Ólafi Ísleifssyni formennsku í þingflokki Miðflokksins?