Nýmæli á Bessastöðum
Engin af þessum breytingum er nauðsynleg. Allt er þetta líklega gert til að auka þægindi og ánægju á æðstu stöðum í anda þeirra sem þar ráða.
Ýmsar venjur og hefðir varðandi embætti forseta Íslands eru óskráðar. Þar má nefna áramótaávarp forsetans sem Sveinn Björnsson flutti fyrst í ríkisútvarpið 1. janúar 1945, um hálfu ári eftir að hann hann var kjörinn forseti á Þingvöllum 17. júní 1944. Halla Tómasdóttir flutti ávarp forseta því í 81. skipti 1. janúar 2026.
Í Morgunblaðinu 4. janúar 1949 birtist frétt um að samkvæmt venju á nýársdag hefði forseti Íslands tekið á móti gestum í Alþingishúsinu. Meðal gesta hefðu verið ríkisstjórnin, hæstaréttardómarar, forseti alþingis, fyrrverandi ráðherrar, fulltrúar erlendra ríkja, ýmsir embættismenn og starfsmenn hins opinbera, fulltrúar stéttarfélaga og fleiri. Þá hefði forseta Íslands borist kveðjur meðal annars frá Hákoni VII. Noregskonungi, Olav ríkisarfa Norðmanna og Passikivi Finnlandsforseta. Athygli vekur að þarna eru konungar Danmerkur og Svíþjóðar ekki nefndir.
Nýársmóttökur forseta færðust síðar á Bessastaði. Við bættist sú hefð að afhenda fálkaorðuna á Bessastöðum áður en móttakan hófst klukkan 15.00 á nýársdag og var gestum boðið í tímaröð og þeir fyrstir sem nefndir eru í frétt Morgunblaðsins frá 1949. Varð oft mikil mannþröng á Bessastöðum en þar ríkti hátíðarandi sem einkennir fyrsta dag ársins og opinber húsakynni þjóðhöfðingjans.

Nú í desember 2025 sendi skrifstofa forseta Íslands þetta bréf til þeirra sem hafa frá upphafi verið í föstum gestahópi við móttökuna 1. janúar ár hvert (líklega frá 1944):
„Kæri viðtakandi.
Forsetaembættið hefur ákveðið að breyta dagsetningu á sínu árlega nýársboði og halda það á þrettándanum, 6. janúar 2026. Ein af ástæðum þessarar breytingar eru óskir margra þeirra sem fengið hafa boð í þessa móttöku á umliðnum árum en hafa heldur kosið að verja nýársdegi með fjölskyldu sinni.
Að auki hefur verið ákveðið að gefa gestum kost á að velja sér fyrir fram komutíma á Bessastaði 6. janúar. Er það gert til að gera daginn sem ánægjulegastan fyrir gesti.
Hér fyrir neðan eru hlekkir sem gera þér kleift að þiggja eða afþakka boðið. Þeir sem þiggja boðið eru síðan beðnir um að velja viðeigandi tíma. Neðst í póstinum er sjálft boðskortið sem æskilegt er að framvísa þegar þar að kemur. Við vonum innilega að þessi nýbreytni mælist vel fyrir.“
Það hefur með öðrum orðum verið fallið frá þessari átta áratuga hefð vegna óska margra sem „hafa heldur kosið að verja nýársdegi með fjölskyldu sinni“. Orðalagið bendir til þess að brottfall gesta hafi valdið forsetaembættinu áhyggjum. Sérkennileg er ábendingin um að fallið hafi verið frá hefðbundinni tímasetningu gesta og gefið til kynna að einhverjum hafi þótt miður ánægjulegt hvar embættið setti þá í „slott“.
Að þessu sinni féll hefðbundinn ríkisráðsfundur á gamlársdag niður og var hann fluttur til 30. desember.
Engin af þessum breytingum er nauðsynleg. Allt er þetta líklega gert til að auka þægindi og ánægju á æðstu stöðum í anda þeirra sem þar ráða.